Skýjum ofar [1] [annað] (1996-2001)

Auglýsing um Skýjum ofar kvöld

Skýjum ofar var í senn útvarpsþáttur og plötusnúðadúó sem sinnti áhugafólki um framsækna danstónlist þegar slík bylgja barst hingað til lands frá Bretlandi undir lok síðustu aldar, segja má að hlutverk þeirra hafi verið að breiða út og kynna tónlistina hér á landi og það gerðu þeir með býsna góðum árangri.

Skýjum ofar var fyrst og fremst hugarfóstur þeirra Eldars Ástþórsonar og Arnþórs Snæs Sævarssonar en sumarið 1996 hófu þeir félagar að kynna hlustendum jungle/drum & bass tónlist í samnefndum útvarpsþætti á X-inu, þeir félagar voru fyrst og fremst að kynna nýja tónlist en einnig fengu þeir tónlistarmenn í þáttinn til viðtals og kynningar – íslenskir tónlistarmenn voru fljótir að taka við sér og segja má að tvímenningarnir hafi bæði rutt brautina fyrir nýja íslenska tónlist af þessu tagi og hvatt um leið aðra til að skapa hana. Þó svo að þeir Eldar og Arnþór (Addi Ofur) hafi mestmegnis verið tveir við stjórnvölinn komu fleiri við sögu við þáttagerðina, s.s. Reynir Pálsson, Björn S. Kristinsson o.fl.

Fljótlega og samhliða dagskrárgerð á X-inu héldu þeir félagar svonefnd Skýjum ofar kvöld þar sem þeir spiluðu nýjustu tónlistina en slík kvöld voru haldin víða um borgina við miklar vinsældir, s.s. á Tetriz, Bíóbarnum Cafe Thomsen, Club Fisher og Cafe 22. Þá voru þeir félagar duglegir að flytja til landsins þekkta plötusnúða úr geiranum erlendis frá sem héldu hér tónleika, spiluðu á Skýjum ofar kvöldum og í útvarpsþáttunum. Skýjum ofar varð meira að segja svo fræg að halda drum & bass kvöld ásamt Party zone í samstarfi við Jazzhátíð Reykjavíkur (RÚREK) undir yfirskriftinni Jazz á ystu nöf.

Skýjum ofar var á dagskrá X-sins fram á vorið 1999, þá fór þátturinn í pásu en byrjaði svo á Rás 2 um haustið, fékk þar hlustun á landsvísu og var þar á dagskrá fram yfir áramótin 2000-01 er þeim var gert að hætta með þáttinn nema þeir fengju styrktaraðila fyrir hann. Það urðu í raun endalok Skýjum ofar en einhverjar endasleppar tilraunir voru þó gerðar til að halda þættinum úti á útvarpsstöðinni Muzik.is. Árið 2000 hafði vefsíðan Breakbeat.is verið sett í loftið og voru þeir Skýjum ofar liðar hluti af því samstarfi þannig að Breakbeat-kvöld leystu Skýjum ofar-kvöldin af hólmi það sama ár.

Þó svo að útvarpsþátturinn Skýjum ofar hafi lagt upp laupana árið 2001 hafa margoft verið haldin Skýjum ofar kvöld til að halda minningu þáttarins á lofti, t.a.m. á 10, 15 og 20 ára afmæli þáttarins og þess má geta að öflugur og virkur Facebook hópur starfar undir yfirskriftinni Skýjum ofar, hann er vettvangur skoðanaskipta um drum & bass tónlist og þar skiptist fólk á tónlist og minnist gömlu góðu daganna.