Skólalúðrasveit Seyðisfjarðar (1987-2007)

Lúðrasveit starfaði um tveggja áratuga skeið við tónlistarskólann á Seyðisfirði í kringum síðustu aldamót en reyndar er fáar heimildir að finna um síðari starfsár sveitarinnar.

Sveitin sem oftast gekk undir nafninu Skólalúðrasveit Seyðisfjarðar mun hafa verið stofnuð haustið 1987 þegar Kristrún Helga Björnsdóttir tók til starfa sem skólastjóri tónlistarskólans en hún stjórnaði sveitinni fyrstu sjö árin eða þar til hún hvarf til annarra starfa. Einar Bragi Bragason tók við hennar starfi bæði sem skólastjóri og stjórnandi sveitarinnar og gegndi þeim störfum að minnsta kosti til 2007 en upplýsingar eru sem fyrr segir stopular um sveitina eftir aldamót.

Skólalúðrasveit Seyðisfjarðar lék oft á tónleikum og aðallega í heimabyggð, og var fastur liður um árabil að hún léki fyrir farþega Norrænu þegar ferjan lagðist að bryggju á Seyðisfirði í fyrsta sinn vor hvert. Þá kom sveitin við sögu á plötunni Seyðisfjörður 100 ára, sem kom út árið 1995 en þar lék hún undir stjórn Einars Braga.

Glatkistan óskar eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.