Sonet [1] (1966-68)

Hljómsveitin Sonet var tríó sem starfaði í um eitt og hálft ár á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar en sveitin hafði Who sem fyrirmynd.

Sonet var stofnuð haustið 1966 en kom fyrst fram opinberlega í janúar 1967, meðlimir hennar í byrjun voru þeir Óttar Felix Hauksson gítarleikari og söngvari, Jón Ólafsson bassaleikari og aðalsöngvari og Aðalsteinn R. Emilsson trommuleikari, Karl Júlíusson virðist hafa tekið sæti Aðalsteins mjög fljótlega.

Sonet lék heilmikið á árinu 1967, fyrst ásamt öðrum sveitum en fór svo að spila ein m.a. á unglingadansleikjum, og einnig á bítlatónleikum í Austurbæjarbíói og Háskólabíói. Um verslunarmannahelgina lék sveitin í Þórsmörk ásamt fleirum og þar lék Jón Ragnarsson gítarleikari (Pops) einnig með sveitinni því sveitin hafði verið ráðin með því að þeir yrðu fjórir. Sveitin starfaði líklega fram yfir áramót 1967-68 en hætti þá fljótlega störfum.

Sonet kom aftur saman á nýjan leik árið 2009 og lék þá í fáein skipti í Kringlukránni, varla er þó hægt að segja að um sömu sveit væri að ræða því auk Óttars Felix og Jóns voru í sveitinni þeir Tryggvi J. Hübner gítarleikari, Gunnar Gunnlaugsson trommuleikari og Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari.