Stefán Óskarsson (1963-)

Stefán Óskarsson

Stefán G. Óskarsson hafði trúbadoramennsku að aukastarfi um nokkurra ára skeið í kringum síðustu aldamót og sendi þá m.a. frá sér eina plötu með frumsömdu efni.

Stefán Guðmundur Óskarsson fæddist 1963 en hann bjó og starfaði á Raufarhöfn framan af, þar hófst trúbadoraferill hans en hann var einkar virkur í félagslífi bæjarins og kom þar víða við sögu í leik- og tónlistarlífinu, lék t.a.m. á trommur með hljómsveitinni Ríben-bandinu og árið 1989 tók hann þátt í söngkeppni sem haldin var á Raufarhöfn og flutti þar frumsamið lag við texta þorpsskáldsins Jónasar Friðriks.

Á næstu árum tróð hann upp sem trúbador og vorið 2000 sendi hann frá sér átta laga plötu, Rokk og rómantík þar sem hann naut liðsinnis Borgars Þórarinssonar sem annaðist upptökuþáttinn, útsetningar og undirleik að einhverju leyti. Tónlistin var öll eftir Stefán sjálfan og einhverjir textanna en þeir voru flestir ortir af Birni Henningssyni, platan hlaut fremur neikvæða dóma í Morgunblaðinu en er að vissu leyti tímamótadómur því þar kom hugtakið „hamfarapopp“ fyrst til sögunnar á prenti.

Stefán skemmti töluvert á næstu árum sem trúbador en hann flutti til Reykjavíkur og var heilmikið að koma fram á árshátíðum og öðrum skemmtunum, það hefur þó verið minna um það síðustu árin og ekki liggja fyrir upplýsingar hvort hann sé enn að troða upp sem trúbador.

Efni á plötum