Stefán Þórisson (1930-2016)

Stefán Þórisson á forsíðu Harmoníkunnar

Stefán Þórisson frá Hólkoti í Reykjadal var þekktur harmonikkuleikari og virkur í félagsstarfi Harmoníkufélags Þingeyinga, hann samdi einnig tónlist og sendi frá sér eina harmonikkuplötu í samstarfi við Ásgeir Stefánsson.

Stefán Þórisson fæddist að Hólkoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og bjó þar reyndar alla ævi, sem bóndi en einnig sem atvinnubílstjóri. Hann eignaðist sína fyrstu harmonikku þegar hann var um átján ára gamall og byrjaði í kjölfarið að leika á dansleikjum, m.a. með Illuga Þórarinssyni en einnig með Reyni Jónassyni. Hann varð smám saman þekktur harmonikkuleikari fyrir norðan og lék á ótal samkomum og dansleikjum um árabil en starfaði líklega þó aldrei með hljómsveitum.

Árið 1978 var Stefán einn af stofnendum Harmoníkufélags Þingeyinga, hann var í framhaldinu oft í stjórn félagsins og gegndi auk þess nokkrum sinnum embætti formanns félagsins en samkvæmt lögum gat sama stjórn ekki verið lengur en tvö ár í senn. Stefán var jafnframt mjög virkur í félagsstarfseminni, lék með hljómsveit félagsins og meðal annars inn á plötu sem það sendi frá sér árið 1997. Stefán var duglegur að taka uppákomur félagsins upp á myndbönd og átti þannig sinn þátt í að skrásetja sögu þess.

Stefán og Ásgeir Stefánsson

Í félaginu kom hann oftsinnis fram með sveitungum sínum og harmonikkuleikurum eins og Grími Vilhjálmssyni og Ásgeiri Stefánssyni en með þeim síðarnefnda gaf hann út plötunar Harmonikutónar úr Reykjadal haustið 2005, á plötunni voru fimmtán af tuttugu lögum eftir þá félaga en Stefán samdi fjölmörg lög um ævina. Hann var gerður að heiðursfélaga í Harmoníkufélagi Þingeyinga árið 2014.

Stefán í Hólkoti lést árið 2016 en hann lék á hljóðfæri sitt fram á hinsta dag.

Efni á plötum