Stillborn (1995-2000)

Stillborn

Saga hljómsveitarinnar Stillborn er nokkuð óljós, annað hvort starfaði hún slitrótt um fimm ára skeið (eða lengur) eða lét lítið fyrir sér fara á löngum stundum en frekari upplýsingar mætti gjarnan senda Glatkistunni.

Stillborn kom fyrst fram á sjónarsviðið vorið 1995 þegar sveitin var meðal keppnissveita í Músíktilraunum Tónabæjar en þar lék hún pönkað rokk, ekki liggur fyrir hversu lengi hún hafði þá starfað en meðlimir hennar voru Jón Ólafur Valdimarsson bassaleikari, Almar Þ. Þorgilsson gítarleikari og Vagn Leví Sigurðsson trommuleikari og söngvari.

Sveitin komst ekki áfram í úrslit Músíktilraunanna en starfaði þó áfram og um sumarið kom hún fram á tónleikum og hafði bæst liðsauki, Vagn Leví hafði þá fært sig yfir á gítar en Hannes [?] hafði tekið við trommunum.

Tvö ár liðu þar til næst spurðist til sveitarinnar en þá lék hún á tónleikum á Rósenberg vorið 1997 og aftur liðu þrjú ár en þá birtist Stillborn á föstudagstónleikum Hins hússins haustið 2000.

Engar upplýsingar er að finna um hvort sveitin starfaði samfellt, hversu lengi og hvort hún var skipuð sömu meðlimum allan tímann.