Strengir [2] (1965-67)

Strengir

Árið 1965 hafði verið starfandi hljómsveit á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Molar en með mannabreytingum hafði verið ákveðið að skipta um nafn á henni og var hún því nafnlaus þegar hún var bókuð „á loftinu“ í Glaumbæ um sumarið. Umboðsmaður sveitarinnar Þráinn Kristjánsson (sem einnig hafði verið umboðsmaður Strengja hinnar fyrri (Strengir [1])) taldi sig eiga réttinn á nafninu og ákvað að það yrði nafn sveitarinnar, reyndar án samráðs við meðlimi hennar – og þannig kom nafnið Strengir til.

Meðlimir Strengja voru þeir Guðmann Ingjaldsson trommuleikari, Guðmundur Emilsson orgelleikari, Helgi Hjaltason sólógítarleikari, Magnús Magnússon rythmagítarleikari og söngvari og Stefán Halldórsson bassaleikari.

Strengir lék töluvert mikið á dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu í hálft annað ár, oft ásamt öðrum hljómsveitum s.s. Toxic, Beatniks og Fjörkum t.d. í Breiðfirðingabúð en einnig mun sveitin hafa leikið töluvert á skóladansleikjum og á Vellinum hjá varnarliðinu.

Strengir léku á sínum síðasta dansleik á gamlárskvöld 1966.