Iceland Airwaves 2022 – Veislan er hafin

Reykjavíkur dætur

Iceland Airwaves 2020 er farin af stað og miðborg Reykjavíkur iðar af fólki sem komið er til að njóta tónlistarinnar. Í morgun bárust þær fréttir að uppselt væri á hátíðina en heilmikið er þó um að vera off venue fyrir þá sem ekki náðu sér í miða. Af ýmsu er að taka í kvöld, fimmtudagskvöld og hér má sjá dagskrá kvöldsins.

Til að fá örlítinn smjörþef af því sem í boði er eru nefnd hér fáein íslensk nöfn.

Júníus Meyvant – Eyjamaðurinn Unnar Gísli Sigurmundsson sem hefur slegið í gegn undir nafninu Júníus Meyvant, fyrst með smáskífunni Júníus Meyvant EP (2015) og í kjölfarið plötunni Floating harmonies (2016), svo Across the borders (2019) og nú síðast Guru á þessu ári, kemur fram í Listasafni Reykjavíkur í kvöld klukkan 21:00. Tónlistina mætti skilgreina sem blöndu þjóðlagarokks, kántrís, fönks og gospels en hann hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Atli Örvarsson – Atli Örvarsson sem áður starfaði með þekktum poppsveitum eins og Stuðkompaníinu, Sálinni hans Jóns míns og SSSól en hefur á síðustu árum skapað sér nafn í heimi kvikmyndatónlistar vestur í Bandaríkjunum, kemur fram í Fríkirkjunni í kvöld klukkan 21:20. Þar má reikna með að hljómborð verði þar í forgrunninum og að tónlistin verði með instrumental nýklassískum blæ.

Atli Örvarsson

Vintage Caravan – Rokksveitin Vintage Caravan heiðrar Iceland Airwaves með nærveru sinni en sveitin leikur í kvöld í Iðnó klukkan 21:55. Sveitin hefur gefið út fimm breiðskífur frá árinu 2012, þá síðustu á síðasta ári (Monuments) en sveitin sækir áhrif sín til klassísks hipparokks. Vintage Caravan hefur síðustu tvo mánuðina verið á tónleikaferðalagi víðs vegar um Evrópu og leikið á um fjörutíu tónleikum.

Reykjavíkudætur – Reykjavíkurdætur þekkja allir en þær dætur hafa frá árinu 2013 hrist upp í íslensku tónlistarlífi með ögrandi rapp hip hop tónlist sinni. Þær dætur hafa frá 2016 gefið út þrjár breiðskífur, RVK DTR (2016), Shrimpcoctail (2018) og Soft spot (2020) en einnig sent frá sér smáskífur, þá síðustu nýlega (Sirkús). Reykjavíkurdætur loka kvöldinu í Listasafni Reykjavíkur í kvöld klukkan 23:20.