Kvæði um gamla staura

Kvæði um gamla staura
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Ég gamall er og lúinn girðingarstaur
með gaddavír sem ryðgar því ég á ekki aur.
Ég núinn er og nagaður
og næstum illa lagaður
en samt ég uni sæll við það
að sitja hér á góðum stað.

Ég er snúrustaur sem gleymdist í garði bakatil.
Það gengur nú á ýmsu sem ég hreint ekki skil.
En þegar allur þvotturinn
til þerris hékk á kostnað minn
var ég heldur betur höfuðpaur,
já heimsins besti snúrustaur.

Ég er rosalegur drumbur og rekinn úr sjó
en rafmagnslínustaur um tíma var ég þó.
Nú ligg ég hér og leiðist allt
því lánið reyndist mér svo valt
og mér til ama mosinn grær.
Ég mæddur er og elliær.

Ég er símastaurinn græni og söng í eina tíð
en síðan liðu árin og nú stend ég bara og bíð
eftir því að eitthvert sinn
ég aftur heimti sessinn minn
og verði fínn og flottur gaur,
já fyrirmyndar símastaur.

[af plötunni Annað Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum]