Stúlknakór Grensáskirkju (1993-2004)

Stúlknakór Grensáskirkju var angi af söngstarfi barna og unglinga innan Grensáskirkju undir lok síðustu aldar og fram á nýja öld.

Barnakór hafði verið stofnaður við Grensáskirkju af Margréti Pálmadóttur kórstjórnanda haustið 1990 og starfaði hann um nokkurra ára skeið þar til að svo virðist sem ný eining hafi verið sett á laggirnar þegar kórmeðlimir þess kórs voru farnir að eldast, þessi nýja eining hlaut nafnið Stúlknakór Grensáskirkju enda voru drengirnir þá farnir að tínast úr kórstarfinu, og var líklega stofnuð 1993.

Stúlknakór Grensáskirkju kom heilmikið fram á næstu árum undir stjórn Margrétar, kórinn var t.d. áberandi í kringum jólastarf kirkjunnar, söng þá í messum og á tónleikum en var einnig á ferðinni og söng fyrir gesti og gangandi í miðbænum. Kórinn mun hafa sungið kirkjulega tónlist í bland við léttara efni.

Nokkuð er óljóst hvernig starfi stúlknakórsins var háttað, svo virðist sem hann hafi starfað nokkuð samfleytt til ársins 1999 undir stjórn Margrétar en svo er eins og eyða komi í starfið og að „síðara“ starfskeið hans hafi verið á árunum 2002 til 2004 og þá undir söngstjórn Ástríðar Haraldsdóttur, sumarið 2004 fór kórinn ásamt tveimur öðrum unglingakórum í söngferðalag til Ítalíu og virðist hafa hætt eftir þá söngferð.

Þess verður að geta að í starfi Barnakórs Grensáskirkju voru um tíma yfir hundrað börn og unglingar og skiptist kórastarfið niður í nokkrar einingar sem virðast hafa gengið undir mismunandi nöfnum, þannig gæti stúlknakórinn verið sama eining og einhverju sinni gekk undir nafninu Kammerkór ungs fólks í Grensáskirkju (1994-96) en það gæti þó allt eins hafa verið annar kór.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um Stúlknakór Grensáskirkju og almennt um söngstarf barna innan kirkjunnar á þessum tíma.