Stúlknakór Jóns G. Þórarinssonar (1961-66)

Jón G. Þórarinsson kórstjórnandi, organisti og söngkennari kenndi við Miðbæjarskólann í Reykjavík um margra ára skeið og stjórnaði þá skólakór í nafni skólans. Hann stjórnaði einnig stúlknakór í skólanum á sjöunda áratugnum en sá kór sem virðist hafa verið eins konar úrvals kór stúlkna á unglingsaldri söng víðs vegar á skemmtunum og í útvarpinu, fyrir liggur að Edda Sigurðardóttir og Sigrún Harðardóttir sungu einsöng með kórnum í útvarpssal.

Kórinn gengur undir nokkrum nöfnum í heimildum en Stúlknakór Jóns G. Þórarinssonar virðist hafa verið almenna heitið á honum. Svo virðist sem hann hafi verið starfandi á árunum 1961 til 1966 en Jón kenndi við skólann til ársins 1967.