Samúel Einarsson (1948-2022)

Samúel Einarsson

Samúel Einarsson eða Sammi rakari eins og hann var iðulega nefndur var kunnur tónlistarmaður vestur á Ísafirði, hann starfaði þar með fjölmörgum hljómsveitum og var BG flokkurinn þeirra þekktust en sú sveit naut nokkurra vinsælda á landsvísu. Samúel gaf út plötu með eigin tónsmíðum þegar hann var kominn á áttræðisaldur.

Samúel Jón Einarsson var fæddur snemma árs 1948 á Ísafirði en þar bjó hann nánast alla sína ævi. Hann komst snemma í tæri við tónlistina, komst upp á lagið með að leika á píanó eftir eyranu og mun hafa verið í einhverjum skólahljómsveitum sem píanóleikari. Hann lærði lítillega á alt horn og saxófón og síðar eitthvað á selló en að mestu leyti var hann sjálfmenntaður í tónlistinni og lék reyndar á flest hljóðfæri, þekktastur varð hann sem bassaleikari en hann gekk til liðs við hljómsveitina Blossa og Barða haustið 1964 og lék þar á bassa þrátt fyrir að hafa nánast aldrei snert á slíku hljóðfæri.

Samúel starfaði með Blossum og Barða í um ár og síðan tóku við sveitir eins og Öx, Sexmenn, Leones og BG kvintettinn, síðast talda sveitin sem var þeirra þekktust gekk undir ýmsum mismunandi nöfnum en lengst af undir nafninu BG og Ingibjörg meðan Samúel lék með henni. Nokkrar plötur, flestar litlar komu út með sveitinni og fjölmörg laga hennar nutu vinsælda.

Samúel hafði numið rakaraiðnina undir handleiðslu Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla) tónlistarmanns á Ísafirði og þeir ráku síðar saman um árabil rakarastofu samhliða spilamennsku. Hann varð sem rakari í hringiðu samfélagsins á Ísafirði og kom þar víða við, rak skemmtistaðinn Uppsali ásamt öðrum um tíma, sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir skíða- og golfsamfélagið í bænum, var virkur um tíma í leikfélaginu og safnaði sögum af samferðarfólki sínu sem hann gaf út í þremur bókum síðar. Þá átti hann þátt í að endurreisa Lúðrasveit Ísafjarðar af löngum dvala en hann hafði einmitt leikið á alt horn með sveitinni á yngri árum. Hann var jafnframt virkur í sönglífi Ísfirðinga, söng með kirkjukórnum og Sunnukórnum auk þess að leika undir á tónleikum síðarnefnda kórsins og á plötu með honum.

Sammi á yngri árum

Samúel hafði tekið sér nokkurt hlé frá tónlistinni á níunda áratugnum og fram á þann tíunda en hóf á „gamals aldri“ aftur að spila með hinum og þessum, bæði á bassa en einnig á hljómborð sem varð hans aðal hljóðfæri á því tímaskeiði – hann lék t.d. oft fyrir dansi einn með söngkonu en einnig á smærri samkomum ásamt einum eða tveimur félögum, oft djasstónlist. Þá starfaði hann einnig með hljómsveitum eins og Sægreifunum og Express en síðarnefnda sveitin var frá Bolungarvík.

Í raun var Samúel viðloðandi tónlist með einum eða öðrum hætti allt fram til hinstu stundar og árið 2021 sendi hann frá sér fjögurra laga plötu sem bar titilinn Gömul stef eftir einu laga hennar, en Samúel hafði verið að semja tónlist lengi og t.d. hafði eitthvað efni eftir hann komið út með BG og Ingibjörgu á sínum tíma. Á Gömlum stefjum var að finna einvala lið þekkts tónlistarfólks en sjálfur söng hann og lék á hljómborð á plötunni.

Samúel lést haustið 2022 eftir stutt veikindi en hann var þá á sjötugasta og fimmta aldursári.

Efni á plötum