Gáfnaljósin [1] (1987)

Hljómsveitin Gáfnaljósin var stofnuð í Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1987. Meðlimir Gáfnaljósanna voru Örn Arnarsson söngvari og gítarleikari, Rúnar Óskarsson söngvari og gítarleikari, S. Björn Blöndal bassaleikari, Örn Hrafnkelsson söngvari og Óttarr Proppé söngvari og básúnuleikari. Flestir meðlimir sveitarinnar tengdust leiklistarklúbbi skólans sem setti upp leikritið Rómanoff og Júlía eftir Peter Ustinov þetta sama ár.

Sveitin tók þátt í söngvakeppni Vísnavina vorið 1987 þar sem keppt var í nokkrum flokkum og hreppti verðlaun fyrir bestu búningana, en meðlimir hljómsveitarinnar voru allir klæddir í áberandi búninga, m.a. jólasveinabúning og einkennisbúning Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. Auk þess báru þeir allir ljóskúpla á höfði, en kúplana höfðu þeir fengið í skólanum þar sem þeir biðu þess að þeim yrði fargað. Nafn sveitarinnar var þannig dregið af búningunum sem fengu verðlaun í söngvakeppninni. Í keppninni flutti sveitin frumsamið lag sem kallaðist „Skápasöngur.“

Gáfnaljósin störfuðu skamma hríð eftir að söngvakeppni Vísnavina lauk og hittust í æfingahúsnæði að Flatahrauni í Hafnarfirði. Æfingar urðu hins vegar ekki margar uns mannabreytingar urðu í sveitinni og hún leystist upp í sinni eiginlegu mynd. Kópavogsbúarnir Flosi Þorgeirsson og Sigurjón Kjartansson bættust í hópinn síðar á árinu og þar með urðu til fyrstu drög hljómsveitarinnar HAM sem kom fram í fyrsta skipti í mars árið eftir.