Blue north music festival haldin í sextánda skiptið

Blue north music festival logoTónlistarhátíðin Blue north music festival 2015 verður haldin í menningarhúsinu Tjarnarborg á Ólafsfirði dagana 26. og 27. júní nk. Áherslan hefur alltaf verið á blústónlist á Blue north music festival, og er þessi elsta blúshátíð á Íslandi nú haldin í sextánda skipti.

Dagskráin í ár verður með eftirfarandi hætti:

Föstudagskvöldið 26. júní leika BBK band en þá sveit skipa Halldór Bragason gítarleikari og söngvari, Sigurður Sigurðsson söngvari og munnhörpuleikari, Jón Ólafsson bassaleikari og söngvari, Tryggvi J. Hübner gítarleikari og Birgir Baldursson trommuleikari, og einnig Dagur Sig og Blúsband en meðlimir þess eru Dagur Sigurðsson söngvari, Hjörtur Stephensen gítarleikari, Magnús Örn Magnússon trommuleikari og Steinþór Guðjónsson bassaleikari.

Laugardagskvöldið 27. júní koma fram hljómsveitirnar Gæðablóð, sem skipuð er Eðvarði Lárussyni gítarleikara, Magnúsi R. Einarssyni gítarleikara, Tómasi M. Tómassyni bassaleikara, Jóni Indriðasyni trommuleikara, Hallgrími Guðsteinssyni slagverksleikara og Kormáki Bragasyni gítarleikara og söngvara, en einnig leikur South River band sem inniheldur Helga Þór Ingason harmonikkuleikara og söngvara, Matthías Stefánsson fiðlu- og gítarleikara, Ólaf Baldvin Sigurðsson mandólínleikara og söngvara, Jón Kjartansson söngvara, bassa- og gítarleikara, Grétar Inga Grétarsson söngvara, bassa- og gítarleikara, og Kormák Bragason söngvara og gítarleikara.

Hátíðin verður sem fyrr segir haldin í menningarhúsinu Tjarnarborg og er aðgangseyrir kr. 3000 fyrir hvort kvöld, eða kr. 5000 fyrir bæði kvöldin. Viðburðirnir hefjast klukkan 21:00 bæði kvöldin.