Ríó tríó [2] (1965-2011)

Ríó tríó 1967

Fyrsta útgáfa Ríó tríós, 1967

Ríó tríó á eina lengstu ferilssögu íslenskrar dægurlagasögu og þó sú saga hafi ekki verið alveg samfleytt spannar hún tæplega hálfa öld og um tuttugu og fimm plötur sem selst hafa í mörgum tugum þúsunda eintaka. Samstarfið hófst sem þjóðlagatríó, þróaðist um tíma í popp með þjóðlagaívafi, jafnvel með áherslu á jólatónlist um tíma en snerist aftur til þjóðlagahefðarinnar í lokin, um tíma var talað um stærsta tríó Norðurlandanna enda var fjöldi meðlima nokkuð á reiki um tíma og í raun hið mesta öfugmæli að kalla Ríóið tríó, um tíma gekk sveitin því undir nafninu Ríó. Þó svo að grínið væri iðulega framarlega á tónleikum tríósins sem og textum þess, lauk sögu þess skyndilega með öllu sorglegum hætti.

Uppruna Ríó tríós má rekja til Gagnfræðiskóla Kópavogs og var sveitin alla tíð kennd við Kópavog sem var í raun rangt þar sem tengingin við staðinn var aðeins í upphafi, hins vegar var lagið Kópvogsbragur lengi á prógrammi sveitarinnar og átti það ekki síst þátt í að tengja Ríó tríó við Kópavog.

Reyndar átti sveitin sér nokkurn aðdraganda, þeir Ólafur Þórðarson, Halldór Fannar (Valsson) og Guðmundur Einarsson höfðu starfrækt skammlíft þjóðlagatríó í gagnfræðiskólanum undir nafninu Rokkarnir nokkru fyrr og þegar fjórði meðlimurinn, Jón Bragi Bjarnason, bættist í hópinn breyttu þeir um nafn og kölluðu sig Kviðagilskvartettinn. Þannig skipaður kom kvartettinn fram á árshátíð skólans um vorið 1965 en þeir félagar höfðu byrjað að spila saman haustið áður (1964).

Þegar nýtt skólaár gekk í garð haustið 1965 stofnuðu þeir Ólafur og Halldór nýtt tríó en nú ásamt Helga Péturssyni, nýja tríóið hlaut nafnið Ríó tríó. Þá voru þremenningarnir fimmtán og sextán ára gamlir.

Tríóið sótti sér fyrirmyndir í þjóðlagasveitir eins og Kingstone tríóið og Peter, Paul & Mary og þegar þeir höfðu komið fram opinberlega í eitt skipti og hlotið fyrir það einhverjar tekjur var keyptur kontrabassi fyrir Helga en Ólafur og Halldór léku á gítara. Allir sungu þeir félagar og lögðu áherslu á þjóðlög, einkum amerísk en smám saman tóku íslenskir textar yfirhöndina og voru þeir margir hverjir í gamansamari grallarakantinum, sem var nokkuð á skjön við þjóðlagasveitahefðina en flestar slíkar sveitir horfðu heiminn mun gagnrýnni augum en Ríó tríóið. Helgi hafði yfirleitt orð fyrir þeim félögum á skemmtunum í fyrstu en hinir lögðu inn orð við og við.

Ríó tríó 1968

Ríó tríó 1968, Ólafur, Halldór Fannar og Helgi

Ríóið eins og þeir voru oft nefndir í daglegu tali spilaði reglulega á skólaskemmtunum og öðrum uppákomum í Kópavogi en vakti fyrst verulega athygli annarra en þeirra sem voru í nánasta umhverfi, þegar þeir komu fram í nýstofnuðu Ríkissjónvarpinu vorið 1967 og aftur um haustið. Þar með var boltinn farinn að rúlla fyrir alvöru og þeir Jón Þór Hannesson, Andrés Indriðason og Hinrik Bjarnason hjá Ríkissjónvarpinu, sem stuttu áður höfðu stofnað Hljómplötuútgáfuna og gefið út Rannveigu og Krumma (úr Stundinni okkar), buðu tríóinu að gefa út litla 45 snúninga hljómplötu, sem þeir að sjálfsögðu þáðu.

Platan kom út vorið 1968 og hafði að geyma fjögur erlend lög við íslenska texta, af þeim vakti Sagan um upptrekkta karlinn mesta athygli. Þótt lagið sé flestum gleymt í dag var þessi útgáfa nóg til þess að Fálkinn fékk áhuga á Ríó tríóinu og bauð þeim langtíma plötusamning.

Vinna við þessa næstu plötu hófst fljótlega og var hún hljóðrituð í Sjónvarpinu af Jóni Þóri þetta sama ár en hún kom þó ekki út fyrr en 1969. Platan var fjögurra laga eins og fyrsta platan en eitt laganna var eftir Ólaf, hin voru erlend. Tvö laganna vöktu meiri athygli en önnur, annars vegar Ég vil bara beat músík, sem var þó síður en svo bítlalegt en hefur e.t.v. lifað lengur en efni stóðu til því að hljómsveitin Upplyfting notaði það í „Stars on 45“ syrpuna sína Í sumarsveiflu. Löngu síðar var það einnig notaði í kvikmyndinni Ein stór fjölskylda. Hitt lagið hefur fylgt Ríóinu alla tíð síðan en það er lagið Ég sá þig snemma dags en textann samdi Helgi. Í honum kveður við þessa einstöku rímsnilld: Ég sá þig snemma dags / um sumar seint í ágúst / saman til sólarlags / við ein sátum á þúst. Lagið sló eftirminnilega í gegn og hefur löngu öðlast sígildi í íslenskri dægurlagasögu. Platan hlaut ennfremur ágætis dóma hjá plötugagnrýnanda Tímans.

Ríó tríó 1969

Ríó tríó 1969

Nú var komið að þeim tímapunkti að Halldór Fannar vildi yfirgefa Ríóið en hugur hans stóð þá til tannlæknanáms haustið 1969. Um svipað leyti var önnur þjóðlagasveit, Nútímabörn, að leggja upp laupana og var Ágústi Atlasyni úr þeirri sveit boðið að fylla skarð Halldórs Fannars. Ómar Valdimarsson hafði einnig verið í þeirri sveit og fékk stöðu umboðsmanns en Ómar starfaði einnig lengi sem blaðamaður.

Með þessa nýju skipan hélt Ríó tríó áfram starfi sínu og um það leyti komust þeir félagar í samband við Raufarhafnarbúann Jónas Friðrik Guðnason sem þá var við nám í Samvinnuskólanum að Bifröst í Borgarfirði. Jónas þótti liðtækt ljóða- og textaskáld sem féll svo vel að Ríóinu að undrum sætti og átti það samstarf eftir að ganga í áratugi, reyndar svo mjög að lengi var Jónas talinn meðal sveitarliða.

Sveitin stimplaði sig reyndar rækilega inn í þjóðarsálina fyrir jólin 1969 þegar sjónvarpsauglýsing með þeim sló í gegn, næstu kynslóðir þekkja textann um Ljóma smjörlíki við lagið Komdu og skoðaðu í kistuna mína og sönglaði með „Veistu hvað Ljóminn er ljómandi góður / Ljóminn er betri‘ en ég hugsaði mér“ o.s.frv.

Strax á næstu plötu Ríósins kom Jónas Friðrik við sögu og sló í gegn með skáldagáfu sinni en það var með laginu Tár í tómið, sem fjallar um böl eiturlyfja en efnið átti á ótrúlegan hátt eftir að tengjast sögu og endalokum tríósins löngu síðar. Aðrir textar Jónasar áttu þó fremur eftir að vera í léttari kantinum en þessi frumraun skáldsins með Ríó. Annars var þessi þriðja smáskífa tveggja laga og kom út 1970, hitt lagið hét Við viljum lifa og naut ekki síður vinsælda. Ágúst lék nú og söng inn á sína fyrstu plötu með Ríóinu og sem fyrr var Jón Þór Hannesson við upptökur sem og Pétur Steingrímsson en þær fóru fram í Ríkissjónvarpinu um vorið. Platan hlaut góða dóma Vikunni, Vísi, Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu.

Þetta sumar (1970) lagðist sveitin í sitt fyrsta ferðalag um Evrópu, fyrst um Skandinavíu en síðan sunnar um álfuna, Þýskaland, Ungverjaland og víðar. Einnig lék Ríóið heilmikið innanlands, t.a.m. á þjóðlagahátíð í Húsafelli um verslunarmannahelgina.

Ríó tríó 1970

Ríó tríó 1970, Ágúst Atlason kominn til sögunnar

Mikill byr fylgdi sveitinni hér heima og ákveðið var að halda stóra tónleika í Háskólabíói, taka upp og gefa út á breiðskífu. Fjölmenni mætti á tónleikana sem haldnir voru á þriðjudagskvöldi í september 1970, góð stemming myndaðist á tónleikunum sem skilaði sér vel á plötunni sem hlaut nafnið Sittlítið af hvurju og kom út fyrir jólin. Gunnar Þórðarson sem hafði þá þegar gert garðinn frægan með sveitum eins og Hljómum og Trúbroti, kom fram með sveitinni á tónleikunum og var það upphaf farsæls samstarfs þeirra Ríó og Gunnars, en hann og Jónas Friðrik voru órjúfanlegur hluti tríósins lengi vel, flestir textanna á plötunni voru einmitt eftir Jónas. Auk Gunnars kom þeir Ari Jónsson trommuleikari og Reynir Sigurðsson víbrafónleikari fram með Ríóinu. Platan, sem er fyrsta íslenska tónleikaplatan, hlaut mjög góða dóma í Vikunni og í Morgunblaðinu. Mörg laganna nutu vinsælda en mesta kátínu vöktu lögin Prestsvísur og Svínið.

Ríóið var nú orðið eftirsótt og var staðráðið í að nýta þær vinsældir til hins ítrasta með mikilli spilamennsku og voru um leið afkastamiklir í plötuútgáfunni því fljótlega eftir útgáfu Sittlítið af hvurju var ný plata hljóðrituð í nýju húsnæði Fálkans við Suðurlandsbraut, það var Pétur Steingrímsson sem annaðist þær upptökur eins og á tónleikaplötunni en alls fóru sautján hljóðverstímar í hana, sem þótti langur upptökutími á þeim tíma.

Gunnar Þórðar og Jónas Friðrik voru nú til þess að gera orðnir fullgildir meðlimir í Ríó tríói enda bar nýja platan titilinn Við Gunni og Jónas, og kom út 1971. Hún var raunverulega fyrsta breiðskífa sveitarinnar. Viðtökurnar voru sem fyrr mjög góða hjá hlustendum og gagnrýnendum en platan fékk mjög góða dóma í Vikunni og Morgunblaðinu. Umslag plötunnar vakti mikla athygli en það var í formi gormabundinnar bókar eða myndaalbúms, á nokkrum blaðsíðum, sem hafði að geyma ljósmyndir af þeim félögum. Seinna upplag plötunnar var ekki með gormabindingunni og því eru tvær útgáfur umslagsins í umferð.

Ríó tríó 1972 (2)

Ríó tríó 1972

Og enn var róið á sömu mið sem hingað til höfðu gefist svo vel, þegar Ríó tríó fór til Noregs í júní 1972 til að leika á nokkrum stöðum sem og í norska ríkissjónvarpinu nýttu þeir tímann til að taka upp tvær breiðskífur í Roger Arnhoff stúdíóinu í Osló undir stjórn Jóns Þórs Hannessonar.

Um verslunarmannahelgina lék sveitin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og fór síðan í tónleikaferð út á land og einnig um Bandaríkin um haustið áður en fyrri platan úr upptökutörninni kom út fyrir jólin 1972. Sú plata hét Eitt og annað smávegis og fékk eins og fyrri plötur Ríósins góðar viðtökur landsmanna, blaðamaður Vikunnar gaf henni t.d. mjög góða dóma. Lög eins og Veizlan á Hóli og Flagarabragur hafa heyrst reglulega æ síðan og síðarnefnda lagið hefur reyndar margsinnis komið út á plötum með öðrum flytjendum s.s. Skriðjöklum, Pöpum og Joe Gæ band en einnig sló hljómsveitin Víxlar í vanskilum í gegn með lagið sumarið 1988, sú útgáfa kom þó aldrei út á plötu en hlaut mikla útvarpsspilun. Þess má einnig geta að Kópavogsbragur sem hafði verið einn einkennissöngva Ríósins kom þarna loksins út á plötu.

Sem fyrr segir höfðu tvær plötur verið teknar upp samtímis í Noregi sumarið á undan og því hefði næsta plata Ríó tríós átt að verða síðari platan í þeirri törn. Hins vegar hófst eldgos í Heimey í janúar 1973 eins og kunnugt er og var ýmislegt gert til að styðja Vestmannaeyinga fjárhagslega í þeim hremmingum. M.a. stóðu Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauða kross deildir hinna Norðurlandaþjóðanna fyrir fjársöfnun til handa eyjaskeggjum og hluti af þeirri fjáröflun var útgáfa tveggja laga plötu Ríó tríós í Noregi. Sú plata hét Håndslag til Island og hafði að geyma lagið um Nonna sjóara sem og Den glade flakkeren en það var sungið á norsku, þýtt af Ivari Orgland. Í tilefni af útgáfu plötunnar fór tríóið til Noregs og söng þar í ríkissjónvarpinu til að vekja athygli á tiltækinu, við sama tækifæri léku þeir félagar í fleiri löndum.

Ríó tríó (2)

Á tónleikum

Í kjölfarið (vorið 1973) kom síðari platan út sem tekin var upp í Noregi árið áður, hún hét Bommfaderí… en hafði í upptökuferlinu gengið undir vinnuheitinu Þabla þa‘ sko!. Og rétt eins og hinar fyrri sló platan í gegn, þar voru lög eins og Sigga litla í lundinum græna og Ástarsaga (Lov storí) en síðarnefnda lagið var syrpa með þekktum slögurum við íslenska texta Jónasar Friðriks. Einnig var að finna á plötunni lagið Flakkarinn káti, sem var lagið sem hafði fengið norska textann á tveggja laga Vestmannaeyjaplötunni. Annars voru flest lögin á plötunni þjóðlög við texta Jónasar. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Þegar hér var komið sögu hafði Ríó tríó afkastað ótrúlega miklu á þeim átta árum er hópurinn hafði starfað, gefið út þrjár smáskífur og fjórar breiðskífur, leikið á fjölda tónleika hér heima og erlendis, auk sjónvarpsþáttagerðar og annarra tengdra verkefna. Þótt samstarfið hefði gengið vel og verið laust við árekstra var þó þreyta komin í hópinn og höfðu þeir Ríó-liðar þá ákveðið að hætta samstarfinu, aukinheldur var Helgi á leið í nám til Svíþjóðar. Hér heima var eitt af lokaverkefnum sveitarinnar þrennir tónleikar í Austubæjarbíói sem gengu undir yfirskriftinni „Lokatónleikar Ríó tríós“, þeir tónleikar voru teknir upp með útgáfu í huga og voru reyndar einnig hugsaðir sem undirbúningur fyrir nokkurra mánaða  Bandaríkjatúr um sumarið en sá túr yrði líka lokahnykkurinn í sögu sveitarinnar.

Ríó tríó auglýsing USA

Blaðaauglýsing um tónleika Ríó tríós í Bandaríkjunum

Ferðin til Bandaríkja Norður-Ameríku var mikil ævintýraför en í henni gekk Ríó tríó undir nafninu Allt í gamni (All in fun). Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) eða bara Sambandið styrkti Ríóið til fararinnar og meðal annars hafði sveitin stórt skilti í för sem á stóð „Samband of Iceland“, Ríó-liðar klipptu hins vegar framan af skiltinu svo á stóð „band of Iceland“ og festu framan á topp gamallar skólarútu sem þeir festu kaup á, og gekk undir nafninu Marta Ísabella (Lúlla). Samhliða því að leika á fjölda tónleikum í ferðinni nýttu þeir tímann til að vinna nýtt efni og þar með var grunnurinn lagður að plötunni Allt í gamni, sem tekin var upp í Noregi í ágúst 1973 að lokinni Bandaríkjaförinni.

Jón Þór Hannesson var þar við stjórnvölinn en hann starfaði þá við norska ríkissjónvarpið og hafði gert um tíma. Pálmi Gunnarsson og Karl J. Sighvatssona, mættu til Oslóar og léku inn á plötuna en einnig var norskur trommuleikari þeim innan handar. Platan kom út fyrir jólin 1973 og hét Allt í gamni eins og fyrr segir, Alþýðublaðið gaf plötunni frábæra dóma undir fyrirsögninni „Plata ársins 1973!“ en gagnrýnandi Vísis var ekki eins hrifinn.

Strangt til tekið var sveitin nú hætt störfum og sneru þeir Ríó-liðar sér að öðrum verkefnum í bili, Helgi fór í nám og sinnti síðan blaðamennsku um tíma, Ólafur fór í tónlistarnám og síðar -kennslu og Ágúst gekk til liðs við Sextett Ólafs Gauks og síðar hljómsveitina Alfa beta, sem gaf út eina plötu.

„Lokatónleikar“ Ríó tríós komu þó út um mitt sumar 1974, ríflega ári eftir viðburðinn. Um er að ræða tvöfalt albúm en það var aðeins í annað skipti sem slík útgáfa kom út á Íslandi, sú fyrsta var plata Óðmanna frá 1970. Platan var unnin út frá þrennum tónleikum í Austurbæjarbíói og hafði að geyma söng, spil og sprell þeirra félaga en þeir höfðu sér auk þess til fulltingis vel valda aðstoðarmenn s.s. Ara Jónsson trommuleikara, Pálma Gunnarsson bassaleikara, Guðmund Ingólfsson píanóleikara auk fleiri. Þessi ætlaða lokaafurð Ríósins seldist afar vel eða í um átta þúsund eintökum áður en varði en hún hlaut þó misjafna dóma, mjög góða í Tímanum en slaka í Alþýðublaðinu.

Ríó tríó 1977 (2)

Ríó

Umslag plötunnar þótti sérstætt en það var myndskreytt að mestu af tíu ára gamalli stúlku, Ingu Georges en einnig var teikning af Ríóinu í miðju albúmsins, sem hægt var að lita en litakassi fylgdi með í kaupunum. Almennt vöktu plötuumslög Ríó tríós mikla athygli og aðdáun. Á blaðamannafundi í tengslum við útgáfu plötunnar sögðust þeir félagar ekki myndu útiloka að koma saman aftur en þá höfðu þeir ekki spilað saman um átta mánaða skeið.

Fyrir jólin 1975 kom út tveggja laga jólaplata undir titlinum Með kveðju frá Ríó, undir merkjum ÁÁ-records, en ekki fór mikið fyrir þeirri útgáfu, t.a.m. birtust ekki neinir plötudómar um hana í fjölmiðlum.

Í mars 1976 bárust hins vegar þær fregnir að Ríó tríó væri komið í hljóðver í London að vinna nýja plötu. Reyndar var Ólafur Þórðarson ekki viðstaddur þær upptökur en hann var þá sjálfur að vinna efni á sína fyrstu sólóplötu, Í morgunsárið, sem út kom 1977. Gunnar Þórðarson (sem stýrði upptökum) og Jónas Friðrik voru þó báðir með og samdi Jónas flesta texta plötunnar og ekki nóg með það, heldur söng hann einnig eitt laganna Allir eru að gera það, sem naut mikilla vinsælda reyndar eins og nánast öll platan, sem varð smellaplata frá a-ö. Titillagið, Verst af öllu.., varð þó allra laga vinsælast en í því er lýsing piparsveinsins, lauslega byggð á lífi Jónasar sem þá bjó við Ránargötu í Reykjavík. Önnur lög, s.s. Stebbi og Lína, Óli Jó (um þáverandi forsætisráðherra, Ólaf Jóhannesson), Kvennaskólapía, Bimbó og Ég vil elska nutu öll fádæma vinsælda og platan seldist í yfir tíu þúsund eintökum. Verst af öllu.. hlaut ennfremur nokkuð góða og samhljóma dóma í Morgunblaðinu, Dagblaðinu, Vísi og Þjóðviljanum.

Ríó tríó 1977

Ríó 1977

Eftir þessar frábæru viðtökur þótti ljóst að fólk var síður en svo orðið leitt á Ríó tríóinu, og sjónvarpsþáttur með þeim félögum sló algjörlega í gegn en í honum fengu þeir Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra til að sprella með sér í laginu Óli Jó. Það var því eðlilegt að hrært yrði í nýja plötu næsta vor, 1977 en um svipað leyti fékk sveitin afhendar gullplötur (fyrir 10.000 seld eintök) fyrir plöturnar Lokatónleikar og Verst af öllu.

Sama forskriftin var höfð að leiðarljósi við gerð nýju plötunnar og fyrri platna og voru textar Jónasar Friðriks hvað mest áberandi, einnig voru óvenju mörg laganna eftir þá sjálfa. Platan sem fékk titilinn Fólk hlaut þó ekki sömu viðtökur og fyrri plötur Ríósins, hún hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og sæmilega í Dagblaðinu en seldist ekkert í líkingu við fyrri plöturnar. Ríó fylgdi útgáfunni eftir um sumarið með tónleikahaldi, þeim fyrstu síðan 1973, víða um land þar sem aðsókn var misjöfn, einnig með tónleikaferð um Kanada um haustið.

Fyrir jólin kom út jólaplatan Jólastjörnur með ýmsum flytjendum þar sem Ríó tríó kom heldur betur við sögu, einnig Halli og Laddi, Björgvin Halldórsson og fleiri. Platan naut mikilla vinsælda og mörg laganna hafa lifað með landsmönnum allt til dagsins í dag, og má þar m.a. nefna framlög Ríósins, Léttur yfir jólin og Hvað fékkstu í jólagjöf? Þetta er sama plata og Glámur og Skrámur slógu í gegn með Jólasyrpunni sinni, Jólahvað? og Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða.

Ríó tríó og HLH (2)

Jólastjörnur – Ríó ásamt Halla, Ladda og Björgvini Halldórssyni

Þetta var það síðasta sem spurðist til Ríó tríós um árabil en aldrei var þó gefið út að sveitin væri hætt störfum. Menn héldu hverjir í sína áttina, Ólafur sinnti tónlistarkennslu, vann sólóefni, og lék með Þokkabót og Lummunum, Helgi gerðist fjölmiðlamaður og gaf út sólóplötu einnig, og Ágúst vann áfram með Alfa beta og Næturgölum. Gunnar Þórðar starfrækti hljómsveitir, hljóðver, plötuútgáfur og sinnti ýmsum öðrum tónlistartengdum verkefnum en Jónas Friðrik hvarf norður á Sléttu. Árið var 1976.

Haustið 1982 gaf Fálkinn út tvöfalda plötu með úrvali laga Ríó tríós, sú plata bar heitið Best af öllu. Aftan á plötuumslagi hennar segir: „Enn hlýtur að vera til fólk í þessu landi, sem man eftir Ríó Tríóinu. Þrír  raftar, sem flæktust um landið með slitna kassagítara og handknúinn vinnukonubassa og höfðu uppi sprell og ýmsan dáraskap. Meinfyndnir voru þeir oft, strákarnir, og svo fallega tenntir og snyrtir, að haft var á því orð í Velvakanda.“ Um þetta leyti var Ólafur að gefa út sína aðra sólóplötu svo ekki kom Ríó tríó fram á næstunni.

Safnplatan fékk góða dóma í Morgunblaðinu, DV og Tímanum og seldist það vel að hún var síðar endurútgefin, það varð sjálfsagt til þess að sú hugmynd kom upp um að Ríóið kæmi saman og skemmti á skemmtunum á veitinga- og skemmtistaðnum Broadway haustið 1984 undir stjórn Gunnars Þórðarsonar en stór hljómsveit skipuð m.a. strengja- og blásarasveit átti að gera verkefnið stærra í sniðum. Er skemmst frá því að segja að sýningin, sem bar yfirskriftina Ríó í Broadway, sló gjörsamlega í gegn og þegar yfir lauk sáu yfir fjörutíu þúsund manns sýninguna sem gekk til áramóta 1985-86.

Vinsældirnar á Broadway og sú staðreynd að Ríó tríó átti tuttugu ára afmæli 1985 urðu til þess að ákveðið var að gefa út plötu fyrir jólin 1985. Hún hét Lengi getur vont versnað og var unnin í nokkrum flýti um haustið undir stjórn Gunnars Þórðar en Ríóið gaf sjálft út plötuna í þetta skiptið. Hvort sem asinn við að koma plötunni út var ástæðan eða eitthvað annað, seldist platan ekki sem skyldi þrátt fyrir góða dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum, og þokkalega í Helgarpóstinum, NT og DV. Ef til vill hafði það eitthvað að segja að öll lögin voru erlend nema eitt, textarnir voru sem fyrr eftir Jónas Friðrik.

Ríó tríó 1984 (2)

Ríó tríó á Broadway 1984

Þó að Ríóið hefði hætt á Broadway um áramótin hélt sveitin áfram að koma reglulega fram með dagskrá, á þorrablótum, árshátíðum og margs konar öðrum skemmtunum, þeir voru t.d. meðal skemmtiatriða á 200 ára afmælishátíð Reykjavíkurborgar í ágúst 1986 en fyrr um sumarið hafði lagið Fröken Reykjavík komið út á safnplötunni Reykjavíkurflugur í flutningi tríósins og notið mikilla vinsælda en fleiri lög með þeim voru á plötunni.

Næsta vetur (1986-87) voru Ríó-liðar áberandi í sjónvarpi en þeir komu þá fram í nokkrum sjónvarpsþáttum sem nýstofnuð Stöð 2 framleiddi og sýndi, Helgi var þá einnig fréttamaður á fréttastofu stöðvarinnar.

Sveitin lagði ekki árar í bát þrátt fyrir slakar viðtökur á plötumarkaðnum, á næstu plötu sem kom út 1987 kvað hins vegar við aðrar áherslur en þar voru íslensk söng- og þjóðlög höfð í fyrirrúmi í fyrsta sinn hjá þeim á plötu en sveitin var einmitt upphaflega stofnuð m.a. úr þeim ranni. Platan fékk titilinn Á þjóðlegum nótum og var gefin út af Steinum, lögin voru útsett af Gunnari sem færði þau í nútímalegan og Ríó-legan búning eða eins og segir á plötuumslagi: Þótt hljómurinn tilheyri nútímanum bera lögin og ljóðin andrúm liðinna tíma. Hér kvað einnig við annan tón hvað yfirbragð og útlit varðaði því augljóslega var hér stílað á erlenda kaupendur einnig, en texti á plötuumslaginu var á ensku og þýsku, auk íslensku. Mörg laganna þekktu landsmenn fyrir en þau nutu engu að síður nokkurra vinsælda.

Platan fékk fremur slaka dóma í DV og Þjóðviljanum en mjög góða hjá gamla þjóðlagasöngvaranum Árna Johnsen á Morgunblaðinu. Reyndar blöskraði Ríó-liðum umfjöllun Sigurðar Þórs Salvarssonar í DV og varð það tilefni frekari blaðaskrifa.

Í febrúar 1988 fór Ríó tríó aftur af stað með nýja sýningu á Broadway undir yfirskriftinni Allt í gamni sem gekk vel í landann sem fyrr. Sveitin lék heilmikið á annars konar tónlistaruppákomum þetta árið og einnig það næsta, 1989 en það ár var ráðist í næstu plötu. Á þeirri plötu, sem fékk nafnið Ekki vill það batna, og kom út á vegum Steina, hafði Ríóið horfið frá þjóðlagaáherslunni og var nú orðið að poppsveit með þjóðlagaívafi – og með Ríó-röddum. Gunnar Þórðarson samdi öll lögin en textarnir voru sem fyrr eftir Jónas Friðrik. Þarna var Magnús Einarsson meðlimur tríósins um tíma en einnig komu fram söngkonur með þeim á Broadway.

Ríó tríó 1990 (2)

Ríó árið 1990, Gunnar Þórðarson og Magnús Einarsson fullgildir meðlimir

Þessar nýju áherslur skiluðu sér í mjög svo aukinni plötusölu en platan varð í þriðja sæti yfir söluhæstu plöturnar árið 1989, seldist í um tíu þúsund eintökum. Nokkur laganna urðu mjög vinsæl í útvarpi og má þar nefna Dýrið gengur laust, Þetta reddast og Ekki vill það batna. Platan hlaut aukinheldur þokkalega dóma í DV og Morgunblaðinu.

Haustið 1990 fór enn eitt showið af stað á Brodway en sú sýning bar heitið Dýrið gengur laust, eftir fyrrgreindu lagi á plötunni sem kom út haustið áður. Um var að ræða 25 ára afmælissýningu en Ríóið átti þá aldarfjórðungs afmæli. Sú sýning gekk ekki lengi því í lok janúar 1991 slettist upp á vinskapinn milli Ríómanna og Árna Samúelssonar sem rak Broadway, því lauk sýningum mjög skyndilega.

Sveitin lagði síður en svo árar í bát og hóf undirbúning að næstu plötu sem unnin var í samstarfi við Landgræðsluna en Ríóið hafði þá lagt ýmsum umhverfisverndarmálum lið. Upptökur fóru fram síðsumars 1991 undir öruggri stjórn Gunnars Þórðar eins og venjulega, og grallaralegir textar Jónasar Friðriks við lög og útsetningar Gunnars var uppskriftin eins og svo oft áður. Um svipað leyti sendi sveitin frá sér lagið Litla flugan á safnplötunni Bandalög 4 en það lag hefur ekki komið út á annarri plötu.

Platan kom síðan út um haustið og fékk nafnið Landið fýkur burt og var gefin út af Landgræðslunni. Ágóðanum af sölu hennar var varið til gróðuruppbyggingar á Íslandi og ritaði Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands nokkur orð á umslag plötunnar. Mjög misvísandi tölur voru gefnar út um sölu plötunnar og heyrðust tölur eins og fjórtán þúsund eintökum, en þegar upp var staðið reyndist platan ekki hafa selst í „nema um tíu þúsund eintökum“. Titillagið Landið fýkur burt og Á pöbbinn fengu mesta spilun laganna á plötunni. Gagnrýnendur voru líka jákvæðir en platan hlaut góða dóma bæði í DV og Morgunblaðinu.

Ekki er hægt að segja skilið við árið 1991 án þess að nefna samstarf Ríó tríós við hljómsveitina Fræbbblana, sem þarna gekk reyndar undir nafninu Glott en saman gáfu þeir út snælduna Þetta er Breiðabik, til styrktar samnefndu íþróttafélagi í Kópavogi.

Í framhaldinu fór Ríó tríó í pásu og lítið fór fyrir sveitinni næstu árin. 1994 kom út safnplata með Ríóinu á vegum Spor og var að hluta til byggð á safnplötunni sem út kom 1982. Þessi plata hét Best af öllu, sem auðvitað var óbein skírskotun í lagið Verst af öllu.

Ríó tríó og Jónas Friðrik

Ríó tríó ásamt Jónasi Friðrik

Í upphafi árs 1995 var Ríóið með sýningu á Hótel Sögu í tilefni af þrjátíu ára afmælis þess en sú sýning gekk fram á vorið. Um það leyti kom út plata með lögum Þormars Ingimarssonar við ljóð Tómasar Guðmundssonar, þar átti Ríó tríó þrjú lög.

Sveitin vaknaði því til lífsins aftur eftir nokkur róleg ár og hóf að vinna nýja plötu sumarið 1996. Forskriftin var auðvitað sú sama og áður, Gunnar Þórðar og Jónas Friðrik lögðu sveitinni lið en upptökur fóru m.a. fram í Starc studio í Dublin á Írlandi. Við það tækifæri léku Ríó-liðar fyrir þarlenda. Nokkrir írskir tónlistarmenn léku einnig á plötunni sem gestir.

Platan, Ungir menn á uppleið, kom út fyrir jólin 1996 og fór minna fyrir henni en mörgum öðrum plötum sveitarinnar.  Ungir menn á uppleið þótti nokkuð á skjön við fyrri Ríóplötur, nokkuð þyngri og söknuðu margir léttleikans sem alltaf einkenndi sveitin, ekkert laganna varð að stórsmelli en platan fékk þó þokkalega dóma í Morgunblaðinu en síðri í DV. Sveitin fylgdi útgáfu plötunnar eitthvað eftir með spilamennsku næsta og þar næsta ár en um vorið 1998 fóru þeir Ríó-menn aftur í pásu um tíma, þó ekki fyrr en lög með þeim höfðu komið út á plötum með Farmalls (1997) og Geirmundi Valtýssyni (1997).

Þarna voru Ríó tríó liðar auðvitað engin unglömb lengur og þótt spilagleðin væri til staðar var úthaldið ekki endalaust og því eðlilegt að sveitin spilaði í mun styttri skorpum, einnig hafði aðdáendahópurinn elst nokkuð samhliða sveitinni þrátt fyrir að hún hefði tíu árum fyrr notið almennra vinsælda og selt mikið plötum. Plötusalan hafði á hinn bóginn nokkuð dregist saman á þeim áratug sem liðin var síðan þá og Landgræðsluplatan sagði e.t.v. meira um landgræðsluátakið en vinsældir sveitarinnar. Þeir höfðu því löngu áttað sig á að hæfilegir Ríó-skammtar í senn dygðu til að halda sátt við þjóðina sem elskaði þá, án þess að ofgera markaðnum.

Þeir félagar sinntu ýmsum öðrum verkefnum, Ólafur var t.a.m. í Kuran Swing og síðar með South River band, auk þess að sinna umboðsmennsku með fyrirtæki sínu, 1000 fjölum. Ágúst og Helgi sinntu annars konar verkefnum, fæst þeirra tengdust þó tónlist.

Ríó tríó 2003

Ríó tríó á tónleikum á Hólmavík 2003

Árið 2002 dró til tíðinda þegar Íslenskir tónar gáfu út tvöföldu safnplötuna …það skánar varla úr þessu: 50 vinsælustu lögin en það þótti mjög metnaðarfull útgáfa, með ítarlegum bæklingi sem hafði m.a. að geyma sögu sveitarinnar og texta laganna fimmtíu.

Í kjölfar útgáfu safnplötunnar voru haldnir útgáfutónleikar og svo aðrir auka útgáfutónleikar, þar með var boltinn farinn að rúlla og ári síðar kom út Ríó-platan Utan af landi. Þar var um fyrstu eiginlegu plötu sveitarinnar í sex ár og nýtt útgáfufyrirtæki Steinars Berg, Steinsnar gaf plötuna út. Uppskriftin auðvitað sú sama og áður, lög Gunnars Þórðar við texta Jónasar Friðriks, utan eins lags eftir eilífðarrokkarann Þorstein Eggertsson. Utan af landi fékk ekki mikla athygli en hlaut þó þokkalega gagnrýni í Morgunblaðinu.

Næsta sumar, 2004 hitaði sveitin upp ásamt KK fyrir Kris Kristofferson á tónleikum í Laugardalshöllinni og það sama ár kom út sólóplata Helga, að öðru leyti höfðu þeir sig ekki mikið í frammi og þarna hafði í raun fjarað undan Ríó tríóinu. 2006 kom reyndar út tónleikaplatan Í salnum, en á henni var að heyra upptökur frá tónleikum tríósins í Salnum í Kópavogi frá haustinu 2003. Platan var gefin út til styrktar Ungblind, sem er vettvangur ungs blind fólks. Svo virðist sem engir dómar um plötuna hafi birst í fjölmiðlum.

Þótt Ríó tríó spilaði orðið sjaldan var þó aldrei gefið út dánarvottorð á sveitina og einstöku sinnum héldu þeir tónleika sem allir voru þó í smærri kantinum, fáeinum sinnum á ári. Utan af landi var því síðasta eiginlega Ríóplata en ennþá áttu eftir að koma tvær safnplötur, hin fyrri Gamlir englar: sígildir á jólum var jólaplata með úrvali laga af þeim jólaplötum sem tríóið hafði komið við sögu á en þarna voru einnig fimm ný jólalög sem tekin voru upp sérstaklega fyrir útgáfu plötunnar. Hún kom út fyrir jólin 2009.

Ríó tríó 2010

Ríó tríó 2010 ásamt Birni Thoroddsen

Haustið 2010 varð hins vegar voveiflegur fjölskylduharmleikur til þess að binda endi á sögu Ríó tríósins, Ólafur Þórðar varð þá fyrir líkamsárás sonar síns sem átti hafði í langvarandi fíkniefnavanda. Hann komst aldrei til meðvitundar og lést rúmlega ári síðar, í desember 2011. Þessi sorglegi atburður varpaði eðlilega miklum skugga á íslenskt tónlistarlíf og vakti óvenju mikla athygli þar sem Ólafur var þjóðkunnur. Og þar með var ljóst að Ríó tríóið kæmi aldrei saman aftur.

Ári síðar, 2012, kom út veglegur pakki, þreföld safnplata með um sjötíu lögum auk þess sem dvd-diskur fylgdi fyrsta upplaginu. Á honum var m.a. að finna minningarþátt um Ólaf, auk tveggja eldri þátta um tríóið.

Saga Ríó tríós spannaði nærri því fimm áratugi og á þeim árafjölda rúmaðist útgáfa tuttugu og fimm platna, tólf þeirra eru hljóðversplötur, þrjár tónleikaplötur (þar af ein tvöföld), fimm smáskífur og fimm safnplötur. Vinsældir sveitarinnar markast ekki síst af safnplötunum, en ein þeirra inniheldur fimmtíu lög, önnur sextíu og níu lög. Það eitt og sér segir ýmislegt um vinsældir hennar. Og oftar en einu sinni seldi Ríó tríó fleiri plötur en aðrir í keppninni um söluhæstu plötur hvers árs. Það er því nokkuð ljóst að sveitin hlýtur að hafa selt flestar plötur allra hljómsveita á Íslandi.

Hér miðast upphaf sögu tríósins við 1965 en gæti strangt til tekið miðast við ári fyrr, endalok sveitarinnar eru einnig hér að ofan miðuð við 2011, dánarár Ólafs. Þegar þetta er ritað hefur þó verið boðað til tónleika Ríó tríós, þar hefur sonur Helga Péturssonar, Snorri tekið við kefli Ólafs.

Tónlist Ríó tríósins var býsna fjölbreytileg heilt yfir, þó sveitin hafi fyrst og fremst verið þekkt fyrir grallaralega þjóðlagaskotna tónlist, þróaðist hún í meðförum Gunnars Þórðarsonar, amerísk þjóðlög í byrjun voru í anda þeirra þjóðlagavakningar sem þá reið yfir en síðar var frumsamið efni yfirsterkara um tíma. Íslensk þjóðlagahefð er einnig dæmi um stefnu sem tríóið tók um tíma, síðar írsk, og jafnvel hreint popp í lok níunda áratugarins. Þannig má segja að sveitin hafi verið hálfgert kamelljón, bundið af rauðum þræði grallaralegra texta Jónasar Friðriks. En það kaldhæðnislega í þessu má segja að hafi verið fyrsti textinn sem hann samdi fyrir Ríó tríó en sá hafði að geyma öllu alvarlegri undirtón en flestir texta hans, það var Tár í tómið sem fjallar einmitt um fíkniefnabölið. Ólafur söng lagið á sínum tíma.

Lög Ríó tríós hafa ekki aðeins komið út á þeim plötum sem tilgreindar eru hér að ofan heldur einnig fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina, hér eru aðeins fáeinar tilgreindar; Svona var það serían, Undurfagra ævintýr (1991), Vímulaus æska (1987), Á frívaktinni (1988), Tónmilda Ísland (2005), Aftur til fortíðar serían, Aldrei ég gleymi (1992), Hornsteinar íslenskrar tónlistar (1992), Óskalögin serían, Rökkurtónar (1987) o.fl.

Efni á plötum