Stofutónleikar á Gljúfrasteini

Duo Ingolfsson-Stoupel

Duo Ingolfsson-Stoupel

Duo Ingolfsson-Stoupel (Judith Ingólfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari) mun flytja verk eftir Robert Schumann, Johannes Brahms og Albert Dietrich á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 23. ágúst klukkan 16:00. Miðaverð er kr. 1500.

Efnisskráin verður sem hér segir:

Schumann / Dietrich / Brahms: Sónata fyrir fiðlu og píanó „Frei Aber Einsam“

Brahms: Ungverskur dans nr. 4 fyrir fiðlu og píanó

Brahms: Ungverskur dans nr. 2 fyrir fiðlu og píanó.

Judith Ingólfsson og Vladimir Stoupel eru listamenn sem leggja mikið upp úr því að fanga tilfinningaþrungið andrúmsloft kammertónlistar og hafa helgað sig flutningi hennar. Sem tvíeyki hafa þau komið fram á ógrynni tónleika og tónlistarhátíða víða um heim, til að mynda í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Judith og Vladimir hafa gegnt stöðu listrænna stjórnenda við “Aigues-Vives en Musiques“ hátíðina í Suður-Frakklandi frá árinu 2009. Dúóið hefur einnig gefið út tvær hljómplötur, sú fyrri árið 2010 með verkum Simon Laks, og sú síðari árið 2011 með verkum Stravinsky og Shostakovich. Sú plata hlaut góðar viðtökur og var tilnefnd til ICMA verðlaunanna árið 2013.