Afmælisbörn 17. september 2015

Gunnar Óskarsson

Gunnar Óskarsson

Tónlistartengdu afmælisbörnin eru tvö í þetta skiptið, bæði eru látin:

Guðmundur Thoroddsen (1952-96) hefði átt afmæli á þessum degi en hann var einn meðlima hljómsveitarinnar Diabolus in musica, sem gaf út tvær plötur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar lék Guðmundur á hin ýmsu hljóðfæri svo sem píanó, harmonikku, slagverkshljóðfæri og klarinettu auk þess að syngja enda var hann fjölhæfur mjög.

Hitt afmælisbarnið er Gunnar Óskarsson en hann hefur oft verið nefndur sem fyrsta íslenska barnastjarnan. Gunnar (fæddur 1927) söng inn á þrjár 78 snúninga plötur (sem voru seldar saman í pakka) aðeins tólf ára gamall árið 1940 og var hann iðulega kallaður „Gunnar Óskarsson tólf ára“. Hann var þá yngstur allra til að syngja inn á plötur á Íslandi, hann hafði þó byrjað að syngja opinberlega nokkru fyrr. Gunnar lést 1981.