Íslensk kjötsúpa (1979)

islensk-kjotsupa3

Íslensk kjötsúpa

Hljómsveitin Íslensk kjötsúpa var sett sérstaklega saman fyrir upptökur á einni plötu, platan hlaut reyndar fremur neikvæðar viðtökur gagnrýnenda og átti það án nokkurs vafa sinn þátt í að sveitin lifði skemur en ella.

Það mun hafa verið plötuútgefanadinn Ámundi Ámundason (ÁÁ-records) sem fékk hugmyndina að gefa út plötu sem hefði að geyma eins konar rokkóperu, sögu úr lífi poppara, hann fékk Jóhann G. Jóhannsson til að koma hugmyndinni í framkvæmd með því að fá hann til að semja lög og texta. Af því loknu var hljómsveitin sett saman (snemma um vorið 1979) en hún hlaut nafnið Íslensk kjötsúpa. Fyrirmyndin að tónlistinni var að finna í Meat loaf en platan Bat out of hell með honum hafði komið út tveimur árum fyrr.

Meðlimir Íslenskrar kjötsúpu voru Björgvin Gíslason gítarleikari, Pétur Hjaltested hljómborðsleikari, Sigurður Karlsson trommuleikari, Jón Ólafsson bassaleikari og söngvararnir María Helena Haraldsdóttir og Sigurður Sigurðsson. Pálmi Gunnarsson og Ellen Kristjánsdóttir komu ennfremur lítillega við sögu upptakanna sem fóru í gang í kjölfarið.

Allt voru þetta reynsluboltar í íslensku tónlistarlífi utan Maríu Helenu sem var einungis á nítjánda ári, hún átti þó eftir að koma síðar við sögu á plötum Áhafnarinnar á Halastjörnunni, Bjartmars Guðlaugssonar o.fl. en hún varð síðar eiginkona Bjartmars. Höfundurinn Jóhann G. kom hvergi nálægt plötuupptökunum enda var hann kominn á kaf í myndlistina á þessum tíma.

Sveitin og væntanleg plata fengu nokkra kynningu í fjölmiðlum enda hafði verið ákveðið að keyra á sveitaböllin um sumarið með þessa tónlist sem hafði verið skilgreind sem þungt diskórokk, þá var einnig farið í að gefa út tveggja laga smáskífu í þúsund eintökum til kynningar á áætlaðri breiðskífu. Sú útgáfa var sérstök að því leyti að hún var í tólf tommu stærð þrátt fyrir að vera tveggja laga (sem var óvenjulegt á þessum tíma þótt það yrði algengara síðar) og að auki án umbúða annarra en millicovers eða nærbuxna.

islensk-kjotsupa1

Kjötsúpan á miðjuopnu Vikunnar

Platan kom síðan út á vegum ÁÁ-records í lok júlí og hét Kysstu mig en það var titill fyrsta lags hennar. Þótt Kysstu mig fengi ágætar viðtökur hlustenda og nyti heilmikilla vinsælda, sbr. lögin Íslensk kjötsúpa, Þegar ég er ein og Dagana dimma, voru gagnrýnendur dagblaðanna afar neikvæðir og rifu plötuna í sig, það var í raun einungis Morgunblaðið sem gaf plötunni sæmilega dóma en hún fékk afar slaka dóma í Dagblaðinu, Vikunni og Tímanum. Reyndar fékk Íslensk kjötsúpa það háðulega útreið í fjölmiðlum að Jóhann G. sá sér ekki annað fært en að svara gagnrýnendum með harðorðri blaðagrein. Í kjölfarið urðu nokkur blaðaskrif um málið.

Hljómsveitin starfaði ekki lengi enda hafði það e.t.v. aldrei verið ætlunin, en neikvæða athyglin hjálpaði þá að minnsta kosti ekki til.

Breiðskífan var síðan endurútgefin í fjögurra platna pakka Jóhanns G. Jóhannssonar, Heildarútgáfa 1970-79, sem kom út 1980 og síðan aftur á geislaplötuformi 2004. Platan hefur í raun fengið mun meiri og jákvæðari athygli í seinni tíð en þegar hún kom út á sínum tíma.

Efni á plötum