Samfélagslega ábyrgt Blúskvöld á Café Rósenberg

blusboltarnir-2017Blúsfélag Reykjavíkur heldur svokallað Samfélagslega ábyrgt Blúskvöld á Café Rósenberg Klapparstíg 27, mánudagskvöldið 6. febrúar nk. klukkan 21.

Það verða Blúsboltarnir sem stíga á svið en það eru þeir Halldór Bragason gítarleikari og söngvari, Eðvarð Lárusson gítarleikari, Tryggvi Hübner gítarleikari, Birgir Baldursson trommuleikari og Sigurþór Þorgilsson bassaleikari.

Allur ágóði af Blúskvöldinu rennur í sjúkrasjóð Tomma Rúnars en hann hefur staðið fyrir Blústónleikum Blúsboltanna á Akranesi í 30 ár.

Þjóðsaga í Mississippi segir að ef blúsmenn bíði við krossgötur í myrkri, þá komi gamli skrattinn Legba og stilli gítar þeirra. Þetta hafi þau áhrif að blúsmenn geti öðlast snilligáfu og dáleitt áheyrendur.
Sumir segja að Blúsboltar hafi einmitt hitt Legba á krossgötum.