Fröken Reykjavík

Fröken Reykjavík
(Lag / texti: Jón Múli Árnason / Jónas Árnason)

Hver gengur þarna eftir Austurstræti
og ilmar eins og vorsins blóm.
Með djarfan svip og ögn af yfirlæti
á ótrúlega rauðum skóm.
Ó, það er stúlka engum öðrum lík,
það er hún fröken Reykjavík
sem gengur þarna eftir Austurstræti
á ótrúlega rauðum skóm.
Og því er eins og hafi vaxið vorsins blóm á stræti.

Hver situr þar með glóð í gullnum lokkum
í grasinu á Arnarhól,
svo ung og djörf í ekta nælonsokkum
en ofurlítið flegnum kjól.
Ó það er stúlka engum öðrum lík,
það er hún fröken Reykjavík
sem situr þarna ung í ekta sokkum
en ofurlítið flegnum kjól.
Á meðan skín hin bjarta heita sumarsól af lokkum.

Hver svífur þarna suður Tjarnarbakka
til samfundar við ungan mann
sem bíður einn á brúnum sumarjakka
hjá björkunum við Hljómskálann?
Ó það er stúlka engum öðrum lík,
það er hún fröken Reykjavík
sem svífur þarna suður tjarnarbakka
til samfundar við ungan mann
sem bíður einn hjá björkunum við Hljómskálann, Hljómskálann.

[m.a. á plötunni Reykjavíkurflugur – ýmsir]