Í Bolungarvíkinni

Í Bolungarvíkinni
(Lag / texti Gísli Ólafsson)

Í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið
þar bregðast ei veiðarnar árið um kring.
Í lendingarstaðnum þó stundum sé ýfið
er stormurinn næðir um fjallanna hring.
Ef inn fyrir brimbrjótinn báturinn nær
er borgið þeim formanni er lendingu fær.

Mannvirkið stærsta sem staðurinn byggði
var steinsteypuveggurinn langt fram í haf.
Þeir voru svo margir að vona að hann dygði
en vonbrigði dálítið hugmynd sú gaf..
Því náttúruöflin þau eru svo sterk
að ónýta mannanna framfaraverk.

Þeir færa hann sjálfsagt er styrjöldin styttist
og steinar og sement fæst billegra en nú.
Því lendingarbót engin betri hér hittist,
hún bilar víst aldrei sú framfaratrú.
Í menningaráttina allt stefnir hér,
hvert einasta mannsbarn á skólana fer.

Eitt templarafélag með framsóknaranda
í fjölda mörg ár hefur starfað hér vel.
Þar skaðar ei náungann brennivínsblanda
því Bakkusarvaldið er kveðið í hel.
Svo rýrir það mannanna réttmætan hag
þegar reseptin hækka í verði hvern dag.

Félagsskap kvenfrelsiskonurnar binda,
komnar víst fimmtíu á hárrétta braut.
Málum í framkvæmdir fallega hrinda
en fordæma hégóma, tildur og skraut.
Þar kemst ekki dans eða daður neitt að,
það er dáið úr sögunni og á sér ei stað.

Ungmennafélagið fylkir nú liði
í fótboltaæfingu‘ hvern einasta dag.
Hver menntunarefling er æskunni að liði,
það eykur þó fótunum styrkleik og lag.
Þó hætt sé við slysi þeim atlögum í
eru áhrif af listinni jöfn fyrir því.

Verkmennafélag er farið að starfa
með fádæma kaupi sem þekktist ei fyrr.
Og þar er nú ýmislegt unnið til þarfa,
um árangur verkanna framkvæmdin spyr.
Hver kaupmaður styrkir þá stofnun með dáð
uns stærsta og fegursta takmarki er náð.

Sjö eru‘ í Víkinni verslunarstaðir,
verðið er lágt eftir ástæðum nú.
Þangað til aðdrátta ganga menn glaðir
í góðæri vilja menn auka sitt bú.
Að vinsælum kaupmanni er virðing í heim,
það er virðingarauki að hlynna að þeim.

Þeir innleiða flest sem er öðrum til þrifa,
á olíu og kolum þeir græða víst smátt.
Þeir vita ef aðrir ei orka að lifa,
þeim auðnast víst varla að komast mjög hátt.
Af náungans kærleika næm er hver taug,
sá neisti með æskunni í sál þeirra flaug.

Það fæst ekki sykur hjá landssjóði lengur
og langt frá að kaupmenn þeir bjargi með það.
Við bíðum nú svona og sjáum hvað gengur,
hvort svamla ekki Fossarnir bráðum hér að.
En þó koma amerísk sætindi samt
og símað til kaupmanna að vigta nú jafnt.

Hér svífur hann Halldór með seðlana í vösum,
og sést ekki gera neitt handarvik þó.
Um afkomu þessa menn eiga í brösum
en enginn fær sjálfstæða skoðun né ró.
Hann syndir sem áll yfir ævinnar haf
og engum mun spauglaust að færa hann í kaf.

Þeir fara ekki að selja honum þorsk eða ýsu,
hann þénaði‘ á því, það gengur of langt.
Þeir vita að hann borgar þeim brúsann að vísu,
en best er að fylgja nú reglunni strangt
og láta ekki kappa þann komast mjög hátt.
Að kaupmönnum staðarins hlynntir hann smátt.

Leikfélag bæjarins listirnar æfir,
það langar víst margan að komast í slíkt.
Með stökustu aðdáun suma það svæfir,
hver sárindi í brjósstinu getur það mýkt.
Því annarra syndir þeir iðka hér mest
og alltaf er gaman að náungans brest.

Hér eru trúmálin tekin að dafna,
tveir eru prestar sem rækta þá hjörð.
Menn vilja ekki‘ í syndanna sollinum kafna
því sálirnar umskapar kenningin hörð.
Menn þurftu að gera svo þegnsamleg skil,
að þjóðkirkjan gamla hún dugði ekki til.

Hér eru góðskáld er hylli þá hljóta
að hreinsa svo málið sé fagurt og gott.
Sú andlega fræði, hún er hér til bóta,
um það ber talsmátinn sérstakan vott.
Sá æðri, sem lægri, hann iðkar það jafnt,
hvað unglingur nemur er fullorðnum tamt.

Hér er einn galgopi, Gísli að norðan,
sem gengur um bæinn í frakka með stokk.
Sá býður nú ómældan óðmyndarforðann,
er alltaf að dinglast í höfðingja flokk.
Fyrir troðfullu húsi hann tvívegis kvað.
Sá tekur nú krónurnar á þessum stað.

Hér brosir hún rósfögur réttlætissólin
sem reifar í minningum hugarins lönd.
Hér eiga elskendur blessuðu Bólin
og blómin sem prýða á framtíðarströnd.
Ég þagna í bili og ljóðunum lýk.
Ó, lof sé þér háttvirta Bolungarvík.

[á plötunni Vagnsbörn – Hönd í hönd (yfirleitt er einungis sungið eitt til tvö erindi)]