Komdu með

Komdu með
(Lag / texti: Gunnar Þórðarson / Jónas Friðrik Guðnason)

Enn á ný
hafa ljúfir dagar leitað þín
og lífið bankað dyrnar þínar á.
Andartak
hafa ævintýrin dvalið hér
en undrandi og döpur horfið frá.
Enginn veit
hvaða gestir hafa gengið inn
í garðinn þinn og engan fundið þar.
Ástin sjálf
um daginn kom og drap svo létt
á dyr hjá þér, en fékk víst ekkert svar.

Hvar ert þú?
Nú er lífið að leita að þér,
líttu upp
þar sem sólin og sigurinn er,
sérðu ei
að allt þetta átt þú að fá?
Líkt og nú
hafa dagar oft dokað þér hjá
drjúga stund,
fullir vonar, en vikið svo frá,
veistu ei,
hér er leikur og líf?
Hvar ert þú?

Veistu hver
það var, sem beið við garðsins hlið
og vildi kalla þig í för með sér?
Annan dag
gæti aðeins nóttin beðið þín
og enginn lengur munað eftir þér.
Komdu með
þó enginn geti ábyrgst þér
að áttin verði nákvæmlega rétt.
Er þó víst
að ef gengið er með gleði
þá er gangan bæði spennandi og létt.

Hvar ert þú?
Nú er lífið að leita að þér,
líttu upp
þar sem sólin og sigurinn er,
sérðu ei að allt þetta átt þú að fá?
Líkt og nú
hafa dagar oft dokað þér hjá
drjúga stund,
fullir vonar en vikið svo frá,
veistu ei,
hér er leikur og líf?
Hvar ert þú?

[m.a. á plötunni Ríó tríó – Ungir menn á uppleið]