Kópavogsbragur

Kópavogsbragur
(Lag / texti: erlent lag / Böðvar Guðlaugsson)

Lít ég hér löngum lögregluna dýra
með öllum öngum umferðinni stýra,
hún er helst á róli við Hafnarfjarðarveginn,
vitlausu megin.

Út í flest fer hún ótrauð mjög að ganga,
fílefldust fer hún á föstudaginn langa.
Ég er satt að segja svei mér ekki frá því
að hún sé á því.

Ég blessa ykkur eins og sjúkur, bæjarstjórn og drottinn,
mikið er mjúkur malbikaði spottinn
enda gerist hvergi annars staðar betri
kvart kílómetri.

Forystuflokkar flest með hraði gjörðu,
sundhöllin okkar loksins svo komst upp úr jörðu,
ósköp var þá ýmsum orðið mál að baða
búkinn blessaða.

[m.a. á plötunni Ríó tríó – …það skánar varla úr þessu]