Þusl (1993-96)

Þusl

Keflvíska hljómsveitin Þusl starfaði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Sögu sveitarinnar lauk um leið og skólagöngu meðlima hennar.

Sveitin var líklega stofnuð haustið 1993 og það haust sigruðu þeir félagar hljómsveitakeppni sem haldin var í FS. Engar upplýsingar er að finna um meðlimaskipan í upphafi en einhverjar mannabreytingar urðu á Þusli þar til yfir lauk.

Þusl átti lag á safnplötunni Sándkurl árið 1994 og þá voru meðlimir hennar Ólafur Freyr Númason söngvari (Goose, Sýróp o.fl.), Guðmundur Kristinn Jónsson gítarleikari (Kiddi í Hjálmum o.fl. sveitum), Magnús Þór Einarsson bassaleikari (Pandóra, Ofris o.fl.), Arnór B. Vilbergsson hljómborðsleikari (síðar kórstjórnandi og organisti), Bjarni Rafn Garðarsson trommuleikari og Þór Sigurðsson gítarleikari (Pandóra, Deep Jimi & the Zep Creams o.fl.).

Síðar sama ár (1994) kom út lag með þeim á annarri safnplötu, Innrás, kornflex og Kanaúlpur en þá hafði Guðmundur Freyr Vigfússon (Fálkar o.m.fl.) tekið við bassanum af Magnúsi, Þór gítarleikari var hættur. Einnig spiluðu Vala Kristjánsdóttir sellóleikari, Kristín Kristjánsdóttir fiðluleikari og Þráinn Guðbjartsson gítarleikari með þeim á plötunni en líklegt er að þau þrjú hafi verið gestaspilarar.

Um það leyti var Þusl farin að spila heilmikið á höfuðborgarsvæðinu, lék m.a. nokkuð á Gauki á Stöng en það var svo vorið 1996 sem sveitin sendi frá sér plötuna Ekki dugir ófreistað! eða um svipað leyti og þeir félagar voru að útskrifast úr FS, það markaði líklega einnig endalok sveitarinnar því svo virðist sem plötunni hafi lítt eða ekki verið fylgt eftir.

Platan var hljóðrituð í Geimsteini af bræðrunum Júlíusi Frey og Baldri Guðmundssonum, hún hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Degi á Akureyri.

Meðlimir sveitarinnar áttu eftir að poppa upp í ýmsum þekktum sveitum síðar.

Efni á plötum