
Ómar Diðriksson
Á þessum degi eru þrjú afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Ómar Diðriksson trúbador og hárskeri er fimmtíu og fimm ára gamall. Hann hefur starfrækt eigin sveitir, Síðasta sjens, Tríó Ómars Diðrikssonar og Sveitasyni, en hefur einnig gefið út nokkrar sólóplötur og í samstarfi við Karlakór Rangæinga. Hann býr nú í Noregi
Gréta Sigurjónsdóttir gítarleikari Dúkkulísanna frá Egilsstöðum er fimmtíu og tveggja ára gömul í dag, Gréta er auðvitað þekktust fyrir framlag sitt með Dúkkulísunum sem sigruðu Músíktilraunir árið 1983 en hún hefur starfað að mestu fyrir austan og þá með sveitum eins og Teppinu hennar tengdamömmu, Ökklabandinu, Bergmáli, Hljómsveit Hreggviðs Jónssonar, XD3 og Nefndinni svo nöfn séu nefnd. Gréta sendi frá sér plötuna Glópagull árið 2000.
Að síðustu er hér nefndur trommuleikarinn Sigfús (Örn) Óttarsson (Fúsi Óttars) frá Akureyri en hann er fimmtugur á þessum degi. Sigfús vakti fyrst athygli með Baraflokknum en hefur síðan þá leikið með fjöldanum öllum af þekktum og óþekktum hljómsveitum, þar á meðal má nefna Rikshaw, Dægurlagapönksveitina Húfu, PKK, Jagúar, Alvöruna, Brimkló og KK-band en þó eru aðeins hér örfáar upptaldar.