Tregasveitin [1] (1988-95)

Tregasveitin

Blúshljómsveitin Tregasveitin var áberandi á fyrri hluta núnda áratugar síðustu aldar en lítið hefur farið fyrir sveitinni síðan þótt aldrei hafi í raun verið gefið út dánarvottorð á hana.

Tregasveitin var stofnuð 1988 og var fyrst um sinn eins konar áhugamannaklúbbur, í byrjun voru feðgarnir Guðmundur Pétursson gítarleikri og Pétur Tyrfingsson söngvari og gítarleikari, og Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari í sveitinni en fljótlega bættust við bassaleikarinn Sigurður Ágústsson, hljómborðsleikarinn Gunnar Jónsson, gítarleikarinn Gunnar Örn Sigurðsson og trymbillinn Guðvin Flosason. Þannig skipuð kom sveitin, ef svo má segja upp á yfirborðið 1989, og í kjölfarið var hún nokkuð áberandi í blúsvakningu sem varð hér á landi um og eftir 1990, og lék á stöðum eins og Púlsinum, Blúsbarnum og Djúpinu þar sem blúsinn var í hávegum hafður.

Gunnararnir tveir hættu fljótlega sem og Sigurður bassaleikari en í þeirra stað kom bassaleikarinn Björn Logi Þórarinsson inn í Tregasveitina og var hún kvintett eftir það. Á þeim tíma seldi sveitin gjarnan snældu á tónleikum sínum með lifandi upptökum en afar litlar upplýsingar er að finna um þá snælduútgáfu.

Árið 1991 tók Tregasveitin hins vegar upp nokkuð af efni ætlað til útgáfu fyrir jólin það sama ár en útgáfunni seinkaði og að endingu kom platan ekki út fyrr en um ári síðar. Platan bar heiti sveitarinnar og innihélt tvö frumsamin lög en önnur lög var erlendir standardar. Hún hlaut ágæta dóma í Degi og DV en þokkalega í Morgunblaðinu. Á þeim tíma var Tregasveitin hvað öflugust en hún lék á fjölda tónleika um land allt í kjölfar útgáfu plötunnar.

Þegar platan kom loks út höfðu orðið þær breytingar á skipan Tregasveitarinnar að Guðvin og Björn höfðu hætt og komu ýmsir við sögu sveitarinnar, s.s. Haraldur Þorsteinsson og Aðalbjörn Þorsteinsson bassaleikarar og Þorgeir Óskarsson trommuleikari áður en Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og Stefán Ingólfsson bassaleikari komu til skjalanna. Þannig var sveitin skipuð þar til yfir lauk 1995 þegar fjaraði endanlega undan sveitinni en þá hafði hún smám saman orðið minna áberandi.

Ekkert spurðist til Tregasveitarinnar fyrr en 2008 og svo aftur ári síðar, en það var svo á Blúshátíð Reykjavíkur 2012 sem sveitin kom saman á nýjan leik af því tilefni að Pétur Tyrfingsson var kjörinn heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur, þá var Sigurður H. Guðmundsson orgelleikari genginn til liðs við sveitina. Tregasveitin kom aftur fram á blúshátíð 2014 þannig að sveitin hefur raunverulega aldrei hætt störfum þótt minna fari fyrir henni núorðið.

Efni á plötum