Trix [1] (1968-71)

Trix

Hljómsveitin Trix var ein þeirra fjölmörgu sveita sem spruttu upp á yfirborðið á bítla- og hippatímum síðari hluta sjöunda áratugarins.

Trix var stofnuð vorið 1968 og í upphafi voru í henni Árni Vilhjálmsson trommuleikari, Guðjón Sigurðsson bassaleikari, Þorsteinn Þorsteinsson söngvari, Stefán Andrésson gítarleikari og Ragnar Gíslason einnig gítarleikari.

Sveitin vakti fyrst athygli þegar hún hafnaði í öðru sæti hljómsveitakeppni sem haldin var í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1968. Þeir félagar voru eftir það og nánast þar til sveitin hætti störfum, fastráðnir í Silfurtunglinu en léku einnig eitthvað víðar á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni.

Þótt kjarni sveitarinnar væri nokkurn veginn sá sami allan tímann urðu þó nokkrar mannabreytingar innan hennar, einkum hélst þeim illa á trommuleikurum. Ragnar gítarleikari hætti fyrstur, sumarið 1969,  og um tíma voru þeir fjórir í sveitinni áður en Ari Kristinsson orgelleikari bættist í hópinn fáeinum vikum síðar. Söngkonan Vigdís Pálsdóttir var orðuð við Trix en óvíst er hvort hún söng nokkru sinni með sveitinni. Sigurður Karlsson var nefndur sem arftaki Árna á trommunum en af þeim trommuleikaraskiptum varð þó ekki, hins vegar kom Már Elíson skömmu síðar inn í sveitina í stað Árna. Már staldraði fremur stutt við og Sveinn Larsson einnig sem tók við um skamman tíma áður en Ásgeir Óskarsson gekk til liðs við Trix. Þegar Ásgeir hætti svo í hljómsveitinni til að ganga til liðs við Rifsberju á miðju sumri 1971 voru dagar sveitarinnar taldir.