Tríó Reynis Sigurðssonar (1960-2014)

Tríó Reynis Sigurðssonar 1960

Reynir Sigurðsson víbrafónleikari starfrækti fjöldann allan af tríóum allt frá 1960 og fram á annan áratug næstu aldar.

Fyrsta tríó Reynis var húshljómsveit í Silfurtunglinu árið 1960, ásamt honum skipuðu Gunnar Guðjónsson gítarleikari og Jón Möller píanóleikari það.

Veturinn 1966-67 var Reynir með tríó í Leikhúskjallaranum en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu það með honum. Hugsanlegt er þó að Reynir Örn Ármannsson gítarleikari og Edwin Kaaber bassaleikari hafi verið spilafélagarnir.

1970-71 voru þeir Jón Páll Bjarnason gítarleikari og Ómar Axelsson bassaleikari í tríói með Reyni í Leikhúskjallaranum en Sigrún Harðardóttir söng með þeim félögum.

Næst var Reynir á ferð með tríó um miðjan níunda áratuginn en engar heimildir er að finna um meðlimaskipan þess, né heldur um tríó sem hann starfrækti 1991 og 1994. Árið 1998 voru þeir Björn Thoroddsen gítarleikari og Gunnar Hrafnsson bassaleikari með Reyni og tveim árum síðar vour þeir Björn og Birgir Bragason bassleikari meðspilarar hans. Eðvarð Lárusson gítarleikari kom einnig við sögu tríós Reynis um það leyti.

Tríó Reynis Sigurðsson – TRES

2006 skipuðu tríóið auk Reynis, Jón Páll Bjarnason gítarleikari og Gunnar Hrafnsson bassaleikari, og þannig skipað notuðu þeir skammstöfunina TRES, undir því nafni gáfu þeir félagar út plötuna Sigfús Halldórsson en hún hafði að geyma sextán lög eftir tónskáldið. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu en hún hafði verið hljóðrituð í Ríkisútvarpinu af Georgi Magnússyni.

Reynir starfrækti tríó eftir þetta nokkuð samfleytt allt til ársins 2014 en ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort sama liðsskipan var á tríóinu eða hvort aðrir tóku stöðu Gunnars og Jóns Páls, sá síðarnefndi lést 2015.

Efni á plötum