Twist & bast (1995-96)

Twist & bast

Hljómsveitin Twist & bast var áberandi á sveitaböllunum árið 1996 en það vor sendi sveitin frá sér plötu.

Twist & bast var stofnuð 1995 gagngert til að gera út á ballmarkaðinn enda var hún skipuð gamalkunnum meðlimum með reynslu úr bransanum en þeir voru Sævar Sverrisson söngvari, Gestur Pálsson saxófónleikari, Jósep Sigurðsson píanóleikari, Magni Friðrik Gunnarsson gítarleikari, Jóhann Geir Árnason trommuleikari og Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikari.

Sveitin sendi frá sér plötuna Uppstökk vorið 1996 en á henni var að finna gamla slagara, flesta frá sjötta áratugnum með textum eftir Jónas Friðrik. Platan hlaut ekki mikla athygli en hún fékk sæmilega dóma í DV.

Twist & bast fór víða um landið á sveitaböllum sumarsins en virðist hafa hætt um haustið 1996.

Efni á plötum