Topp tíu listi Glatkistunnar #1 – Stemmingslög og íþróttir

Stuðningsmenn íslenska knattspyrnulandsliðsins á EM 2016

Hér kemur til sögunnar fyrsti Topp tíu listi Glatkistunnar en sá listi er tileinkaður íslenska landsliðinu í knattspyrnu sem nú er að fara á sitt fyrsta Heimsmeistaramót í knattspyrnu.

Listinn hefur að geyma tíu lög sem skapast hefur stemming fyrir í tengslum við íþróttaviðburði landsliða og/eða íþróttafélög. Af einhverjum ástæðum hafa slík lög nánast einungis verið gefin út tengt boltaíþróttum hérlendis og líklega er hlutfallið svipað í nágrannalöndum okkar. Listi Glatkistunnar ber þess merki að mesta stemmingin er í kringum landsliðin okkar í knattspyrnu og handknattleik, meirihluti laganna tengist landsliðum en fjögur þeirra eru tengd félagsliðum.

Nokkur hefð er fyrir stemmings- og stuðningslögum hér á landi og má e.t.v. tengja þá hefð beint við árangur landsliða okkar í boltaíþróttum, sérstaklega á allra síðustu árum. Ómar Ragnarsson reið á vaðið en hann sendi frá sér tveggja laga plötu ásamt karlahandboltalandsliðinu fyrir Heimsmeistaramótið í Austur-Þýskalandi 1974, KR-ingar sendu sömuleiðis frá sér tveggja laga plötu árið 1979 og svo koll af kolli. Tugir slíkra laga hafa verið gefin út á plötum en enn fleiri stuðningslög hafa verið sungin á kappleikjum hérlendis án þess að útgáfa komi þar nokkuð við sögu. En hér kemur fyrsti Topp tíu listi Glatkistunnar:

10 Íslenski þjóðsöngurinn (Lofsöngur / Ó guð vors lands) skipar tíunda sæti listans, eins konar heiðursæti, en lagið er leikið við upphaf allra landsleikja. Þjóðsöngurinn er mörgum erfiður til söngs, hann er bæði langur og spannar tónsvið sem flestum er ofaukið, melódían er auk þess erfið sem og textinn en flestir láta sig þó hafa það að syngja með í viðlaginu. Þess má geta að erindin eru þrjú en ekki eitt eins og flestir halda.

 

 

9 Valsmenn léttir í lund var lag sem margir sungu árið 1981 þegar það kom út á plötunni Valur léttir í lund en þá höfðu Valsmenn unnið Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu karla 1980, 1978 og 1976 auk þess að vera með mjög sigursælt lið í handboltanum árin á undan. Lagið heyrist af einhverjum ástæðum ekki eins oft í dag.

 

 

8 Allt að verða vitlaust var fyrsta stemmingslagið sem eitthvað kvað að fyrir alvöru en lagið naut mikilla vinsælda í tengslum við Heimsmeistaramótið í handknattleik 1986 sem haldið var í Sviss en íslenska landsliðið lenti þar í sjötta sæti. Það var Pétur Hjálmarsson sem var forsöngvari í laginu en landsliðshetjur á borð við Kristján Arason, Þorgils Óttar Mathiesen, Guðmundur Guðmundsson og Sigurður Sveinsson sungu með í viðlaginu.

 

 

7 Áfram Ísland með Baggalúti naut nokkurra vinsælda en það var “stuðningslag” tileinkað knattspyrnulandsliðinu, sem þeir félagar sendu frá sér árið 2003. Reyndar má deila um stuðninginn í garð landsliðsins en þar er reyndar gert stólpagrín að því og m.a. sungið “Áfram Ísland – jafnvel þó við getum ekki neitt”.

 

 

6 “Við erum KR” söng Bubbi Morthens “og berum höfuðið hátt” ásamt Gömlu brýnunum á plötunni Allir sem einn, sem reyndar var þekktari sem KR-platan og kom út 1995. KR-ingar höfðu þá reyndar ekki unnið Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu síðan 1968 en urðu Íslandsmeistarar árið 1999 og spurningin er hvort lagið hafi þar hjálpað til.

 

 

5 Skagamenn skoruðu mörkin varð feikivinsælt þegar það kom út á plötu Skagakvartettsins árið 1976 en Akranesliðið var þá á miðju blómaskeiði sínu í fótboltanum. Það heyrist jafnvel einstöku sinnum enn spilað í útvarpi en blómaskeiðinu virðist vera lokið að minnsta kosti í bili.

 

 

 

4 Komum fagnandi naut sömuleiðis heilmikilla vinsælda þegar það kom út árið 1998 en það var Ívar Bjarklind sem sendi lagið frá sér til stuðnings ÍBV í knattspyrnunni. Mikil stemming myndaðist til að mynda í kringum lagið á þjóðhátíð Eyjamanna næstu árin á eftir og fjölmargir stigu út úr Herjólfi í lok verslunarmannahelgar með lagið á heilanum án þess að vita hvað þetta “Íbjévaff” væri.

 

 

3 Áfram Ísland (2013) með Unglingalandsliðinu eða Stop Wait Go og nokkrum þekktum söngvurum s.s. Sverri Bergmann, Ingó veðurguð, Jóhönnu Guðrúnu o.fl. er annað lagið á listanum með þessum titli en segja má að fyrsta “gæsahúðarlagið” hafi litið dagsins ljós þar sem klippum með lýsingum fótboltalýsenda var bætt inn í lagið. Önnur útgáfa með Hreimi Erni Heimisson og Birgittu Haukdal meðal flytjenda hafði áður verið gerð árið 2002.

 

 

2 Gerum okkar besta með Valgeiri Guðjónssyni og handboltalandsliðinu sló algjörlega í gegn á sínum tíma en það var gefið út fyrir Ólympíuleikana í Suður-Kóreu sumarið 1988. Það dró ekki úr vinsældum lagsins að Laddi söng með í einni útgáfu lagsins í gervi Bjarna Fel en þrátt fyrir þessar vinsældir seldist platan fremur illa. Löngu síðar var opinberað að margir landsliðsmannanna hefðu haldið illa lagi og að upptökumaðurinn, Ásgeir Jónsson (söngvari Bara-flokksins) hefði sungið ofan í raddir þeirra og kórsöngurinn væri að mestu hans verk.

 

1 Er völlur grær (Ég er kominn heim) er topplagið á þessum lista þrátt fyrir að vera hvergi nærri stemmingslag fyrir nokkurn skapaðan hlut. Hins vegar hefur útgáfa Óðins Valdimarssonar af laginu frá 1960 sameinað íslensku þjóðina í stemmingu í kringum íslensk landslið á síðustu árum, hvort heldur sem er á vellinum sjálfum eða fyrir framan sjónvarpið. Lagið er ungverskt að uppruna en verður varla íslenskara þegar þúsundir manna og kvenna kyrja það í blandi við “Húh” og fær það án nokkurs vafa að heyra í nokkur skipti sumarið 2018 á meðan á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi stendur.