Smalaljóð

Smalaljóð
(Lag / texti: rússneskt þjóðlag / Bjarki Árnason)

Fjöllin óma frískum hljóm
og fögur skín í heiði sól,
þar smalinn hóar hvellum róm
er hjörðin nálgast kvíaból.

Og smalans líf er ljúft og bjart
hans liggja spor um blómaskart.
Með staf í hendi og nesti nóg
er næði og hvíld á mosató.

Í klettaborg hann kóngur er
en kórónu þó enga ber,
hans hjörð er þegnar þar um sinn,
en þjónninn smalahundurinn.

En smalakofi er höllin hans
og hún er laus við prjál og dans,
en enginn kóngur annar hér
eins vel og hann um ríkið sér.

[af plötunni Karlakórinn Vísir – Okkar glaða söngvamál]