Bleiku bastarnir (1987-88)

Bleiku bastarnir

Bleiku bastarnir voru áberandi í þeirri síðpönkvakningu sem átti sér stað á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar, tónlist sveitarinnar þótti vera blanda af skítugu rokki, pönki, rythmablús og rokkabillí og féll vel í kramið hjá vissum hópi tónlistaráhugafólks.

Bleiku bastarnir (bastarðarnir) voru stofnaðir vorið 1987 og einhverjar mannabreytingar og tilraunir voru gerðar áður en sveitin kom fyrst fram í júlí á skemmtistaðnum Casablanca. Það var svo á Rykkrokk hátíðinni í ágúst sem hún stimplaði sig rækilega inn og í kjölfarið spiluðu þeir félagar mikið. Meðlimir Bastanna voru Björn Baldvinsson söngvari, Magnús Þorsteinsson trommuleikari, Ívar Árnason gítarleikari, Tryggvi Thayer gítarleikari og Páll Thayer bassaleikari, þeir tveir síðast töldu eru tvíburar.

Sveitin vakti mikla athygli, m.a. fyrir líflega sviðsframkomu Björns söngvara (sem iðulega gekk undir nafninu Bjössi Basti), og sveitinni var til að mynda boðið að hita upp fyrir Sykurmolana.

Smekkleysa ákvað að gefa út plötu með Bleiku böstunum og kom hún út fyrir jólin 1987 og var sex laga, þeir félagar unnu tónlistina mestmegnis saman en grunnarnir að lögunum komu þó oftast frá Tryggva og Ívari. Ágætir dómar féllu um plötuna í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og DV, og hún er í dag eftirsóttur safngripur enda var upplagið fremur lítið.

Bleiku bastarnir 1987

Lög með hljómsveitinni höfðu þá einnig komið út á tveimur snældum á árinu 1987, New Icelandic Music (Grammið) og Snarl II: Veröldin er veimiltíta! (Erðanúmúsík).

Um vorið 1988 hættu þeir bræður, Tryggvi og Páll í Bleiku böstunum og fór þá sveitin í nokkurra vikna pásu á meðan nýir meðlimir voru teknir inn, það voru þeir Gunnar Ellertsson bassaleikari og Victor Sveinsson gítarleikari. Minna fór þó fyrir Böstunum í kjölfarið og þeir spiluðu lítið um sumarið, eftir stutta pásu birtust þeir aftur en þá hafði fækkað um einn í hópnum – ekki liggur þó fyrir hver hafði yfirgefið sveitina.

Um það leyti birtust einnig fréttir um að sveitin hefði lokið upptökum á nýrri plötu en hún kom aldrei út, sveitin hætti störfum áður en til þess kæmi að platan kæmi út. Reyndar segir sagan að frumeintakið af plötunni hafi eyðilagst þegar kók helltist yfir það og í kjölfarið hafi þeir ekki nennt að standa í þessu lengur, hreinlega gefist upp.

Meðlimir Bleiku bastanna fóru hverjir í sína áttina og urðu ekki mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi eftir þetta, þeir Thayer bræður hafa þó eitthvað verið viðloðandi tónlist og Magnús og Björn voru um tíma í hljómsveitinni Rut+.

Efni á plötum