Blue boys (1935-38)

Blue boys

Hljómsveitin Blue boys var meðal fyrstu djasssveita sem störfuðu hér á landi en aðalvígi sveitarinnar var Iðnó.

Sveitin var stofnuð haustið 1935 af Henna Rasmus píanóleikara og lagahöfundi sem þá var nýkominn hingað heim frá Þýskalandi þar sem hann var við nám. Aðrir meðlimir Blue boys voru Skafti Sigþórsson saxófón- og trompetleikari, Adolf Theódórsson saxófónleikari, Guðlaugur Magnússon trompetleikari, Jóhannes Eggertsson trommuleikari og Jakob Einarsson saxófónleikari en sá síðast taldi söng stundum einnig með sveitinni. Þórhallur Stefánsson klarinettuleikari mun á einhverjum tímapunkti einnig hafa leikið með henni.

Blue boys spilaði mestmegnis á dansleikjum í Iðnó við Tjörnina en einnig stundum í Ingólfscafé og Röðli, og sjálfsagt víðar. Stundum lék hálfgert útibú sveitarinnar á minni samkomum, svokallað Tríó Blue boys.

Blue boys starfaði þar til um haustið 1938 þegar sveitin var lögð niður.