Varnaglarnir (1987)

Varnaglarnir var hljómsveit sett saman snemma árs 1987 í tilefni af átaki Landlæknisembættisins gegn eyðnismiti, sveitin mun þó ekki hafa komið fram opinberlega heldur einungis tekið upp eitt lag sem hlaut nafnið Vopn og verjur. Í laginu var hvatt til smokkanotkunar til að sporna gegn eyðnismiti og samhliða því voru gefin út veggspjöld þar sem þjóðþekktir Íslendingar veifuðu smokki undir slagorðinu „Ekki deyja úr fáfræði“.

Það var Valgeir Guðjónsson sem samdi lag og texta við Vopn og verjur en auk hans skipuðu Þorsteinn Jónsson hljómborðsleikari, Þorsteinn Magnússon gítarleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Bubbi Morthens söngvari, Ragnhildur Gísladóttir söngkona og Egill Ólafsson Varnaglana. Einnig kom séra Arnfríður Guðmundsdóttir við sögu í laginu en hún las ritningartexta í sólókafla þess.

Lagið kom út á safnplötunni Lífið er lag sumarið 1987 og naut töluverðra vinsælda en það komst á topp vinsældarlista Rásar 2 og náði öðru sæti á lista Bylgjunnar. Það var síðan endurútgefið löngu síðar á ferilsafnplötu Valgeirs Guðjónssonar, Spilaðu lag fyrir mig.