Viðarstaukur [tónlistarviðburður] (1983-)

Frá Viðarstauki 1985

Viðarstaukur er nafn á hljómsveitakeppni sem haldin hefur verið innan Menntaskólans á Akureyri um árabil, keppnin er haldin á vegum TÓMA (Tónlistarfélags MA).

Viðarstaukur (dregið af Woodstock) var fyrst haldinn árið 1983 og var Logi Már Einarsson (síðar alþingismaður) einn aðal hvatamaðurinn að keppninni, hún hefur síðan þá verið árviss viðburður í félagslífi skólans, keppnin er venjulega haldin í mars og hefur oftast farið fram í svokölluðum Möðruvallakjallara.

Keppnisatriðin hafa yfirleitt verið á bilinu tíu til fimmtán og eru veitt verðlaun fyrir nokkur atriði s.s. bestu sviðsframkomuna, besta frumsamda lagið, bestu búningana og svo auðvitað aðalverðlaunin fyrir bestu hljómsveitina. Að minnsta kosti tveir þriðju meðlima sveitanna þurfa að vera nemendur innan skólans.

Hljómsveitin Ærufákar urðu sigurvegarar fyrstu keppninnar en þar hafa margir kunnir norðlenskir tónlistarmenn og -konur stigið sín fyrstu spor á tónlistarsviðinu s.s. Jón Kjartan Ingólfsson, Sigrún Eva Ármannsdóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson svo fáein dæmi séu nefnd.