Mánar [2] (1962-65)

Mánar

Norðlenska hljómsveitin Mánar starfaði um nokkurra ára skeið á Dalvík eða nágrenni á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar og var skipuð ungum meðlimum sem fylgdu straumum þess tíma og spiluðu gítarrokk í anda The Shadows.

Meðlimir Mána voru allir á unglingsaldri og höfðu spilað saman um tíma m.a. undir nafninu AA sextett þegar mannabreytingar urðu í sveitinni árið 1962, harmonikkuleikara var skipt út og þeir hófu að leika Shadows-rokk undir Mánanafninu. Þetta voru þeir Kári Gestsson bassaleikari, Jóhann Antonsson trymbill, Atli Rafn Kristinsson gítarleikari, Friðrik Daníelsson gítarleikari og Gunnar Jónsson saxófónleikari.

Heilmiklar mannabreytingar einkenndu Mána, Guðlaugur Arason leysti Jóhann af hólmi veturinn 1962-63 en Jóhann tók aftur við trommuleikarahlutverkinu vorið 1963. Árið 1964 hætti Friðrik gítarleikari en Vilhelm Guðmundsson tók við af honum, ekki liggur þó fyrir á hvaða hljóðfæri hann lék. Sveitin var söngvaralaus í anda tíðarinnar en mun hafa komið fram í einhver skipti með söngvara, þannig söng Gunnar Stefánsson einhverju sinni með henni og einnig kom sveitin fram undir nafninu Mánar og Alli vorið 1965, engar upplýsingar er hins vegar að finna um þennan Alla.

Þegar Mánar frá Selfossi var stofnuð 1965 og hófu í kjölfarið að vekja athygli breyttu hinir svarfdælsku Mánar nafni sveitarinnar í Ármenn og störfuðu undir því nafni í fjölmörg ár.