
Meyland
Danshljómsveitin Meyland starfaði í um fimm ár á síðari hluta áttunda áratugs síðustu aldar og fram á þann níunda, lék aðallega á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins s.s. aðallega í Klúbbnum en einnig á sveitaböllum úti á landi og m.a. á Bindindismótinu í Galtalæk um verslunamannahelgina 1977, eitt sumarið ferðaðist sveitin um landið ásamt eftirhermunni og búktalaranum Guðmundi Guðmundssyni og dansmærinni Dolly.
Meðlimir sveitarinnar voru þeir Sigurður Ú. Kristjánsson bassaleikari, Helgi Sigurðsson trommuleikari (Blúsbrot), Runólfur Birgir Leifsson gítarleikari (Blúsbrot) og Ómar Hlynsson gítarleikari (síðar trúbador). Jafnframt starfaði Kristján [?] hljómborðsleikari með sveitum um tíma sem og Andri Örn Clausen, og e.t.v. fleiri. Raddaður söngur var áberandi hjá sveitinni og sungu flestir ef ekki allir meðlimir hennar.
Hljómsveitin mun hafa verið stofnuð vorið 1976 og starfaði nokkuð samfleytt til haustsins 1980, þá virðist hún hafa farið í pásu en birtist aftur haustið 1981 – en starfaði þá stutt og hætti fljótlega af því er virðist.














































