Miðnes (1995-2004)

Miðnes

Hljómsveitin Miðnes starfaði í tæplega áratug og sendi frá sér tvær breiðskífur, nafn sveitarinnar var alla tíð samtvinnað Grand rokk en hún var hálfgildings húshljómsveit þar.

Miðnes mun hafa verið stofnuð árið 1995 en líklega kom hún ekki opinberlega fram fyrr en haustið 1997 þegar hún fór að sjást reglulega á Grand rokk þar sem þeir félagar spiluðu til að drýgja tekjurnar á háskólaárum sínum. Sagan segir að sveitin hafi í raun aldrei æft eftir að þeir hófu að spila á Grand rokk en litið á staðinn sem æfingahúsnæði, sveitin spilaði þó ekki eingöngu þar og fór jafnvel stundum út á landsbyggðina til ballspilamennsku en uppistaðan í prógramminu var framan af efni eftir aðra tónlistarmenn.

Miðnes var líklega lengst af tríó og voru meðlimir þess Freyr Eyjólfsson söngvari og gítarleikari, Stefán Már Magnússon gítarleikari og Vernharður Jósefsson bassaleikari sem allir störfuðu þá einnig í hljómsveitinni Geirfuglunum. Þeim til fulltingis voru hinir og þessir trommuleikarar, m.a. Kristján Freyr Halldórsson og þegar þremenningarnir réðust í gerð plötu sumarið 2000 fengu þeir Birgi Baldursson með sér á trommur.

Platan var unnin í nokkrum fljótheitum undir stjórn Vernharðs, og kom út á vegum Rafns Jónssonar hjá R&R músík. Hún hlaut nafnið Reykjavík helvíti eftir einu laga hennar og var hún þematengd en Reykjavík og kannski dekkri hliðar hennar var meginefni textanna sem Freyr samdi að mestu en hann ásamt Stefáni voru aðallagahöfundar Miðness. Tónlist sveitarinnar var svolítið í anda bresks rokk og þóttu margir heyra Oasis líkindi í henni, platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu en slaka í DV, titillagið varð nokkuð vinsælt sem og lagið Einar.

Miðnes 2003

Um svipað leyti og platan var að koma út gekk trommuleikarinn Andri Geir Árnason til liðs við Miðnes og starfaði með þeim í framhaldinu en sveitin fylgdi plötuútgáfunni nokkuð eftir með spilamennsku. Sveitin var því nokkuð áberandi um þetta leyti, þeir félagar áttu til að mynda efni í kvikmyndinni Óskabörn þjóðarinnar og í heimildamynd um Lalla Jones.

Í upphafi árs 2002 kom sveitin fram í fáein skipti undir nafninu Majónes af einhverri ástæðu en síðan tók Miðnes-nafnið aftur við og sveitin var sem fyrr öflug á Grand rokk, um haustið var sveitin farin að kynna nýtt efni í bland við eldra enda voru þeir félagar þá farnir að vinna nýja plötu sem kom síðan út haustið 2003 undir titlinum Alein. Um það leyti kom sveitin fram á Iceland Airwaves í fyrsta og eina skipti og var bassaleikarinn Herbert Viðarsson (Skítamórall o.fl.) genginn í sveitina í stað Vernharðs. Tónlistin á Alein hafði þróast frá fyrri plötunni og t.d. voru hljómborð og raddir meira áberandi en nýja platan var hljóðrituð í upptökuheimili Geimsteins í Keflavík og gefin út af sama fyrirtæki, þess má geta að sjálfur Rúnar Júlíusson syngur lokalag plötunnar.

Platan fékk ágæta dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu en ekkert laganna náði þó nokkrum vinsældum eins og lög af fyrri plötunni höfðu gert.

Miðnes starfaði fram á mitt ár 2004 en hvarf við svo búið og hefur ekki heyrst til hennar síðan.

Efni á plötum