Afmælisbörn 10. mars 2020

Hanna Valdís Guðmundsdóttir

Á þessum annars ágæta degi koma fyrir fjögur afmælisbörn á lista Glatkistunnar

Hanna Valdís Guðmundsdóttir söngkona var ein af fyrstu barnastjörnunum og enn í dag heyrist reglulega lag hennar um Línu Langsokk, auk annarra. Hún var einnig ein af stúlkunum sem prýddi Sólskinskórinn og söng lagið Sól sól skín á mig, sem margir þekkja. Hanna Valdís er fimmtíu og átta ára á þessum degi.

Búi Bendtsen söngvari og gítarleikari á fjörutíu og eins árs afmæli í dag. Hann hefur komið víða við á tónlistarferli sínum, verið í hljómsveitum eins og Fídel, Manhattan, Tríó Briggs og gullvagninum og Brain police.

Bjartur Sæmundsson trommuleikari Out loud frá Norðfirði er þrjátíu og fimm ára gamall í dag en hann lék með fleiri sveitum austanlands áður en hann fluttist til Reykjavíkur.

Rúnar Gunnarsson (1947-72) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann var þekktur söngvari á sjöunda áratugnum og af mörgum talinn fremsti söngvari bítlaáranna. Hann söng með Dátum lög eins og Gvendur á eyrinni og Leyndarmál en einnig söng hann lög Oddgeirs Kristjánssonar með Sextett Ólafs Gauks og Svanhildi Jakobsdóttur (Blítt og létt, Ship-o-hoj, Undarlegt með unga menn o.fl.), allt eru það löngu sígild lög. Einnig komu út sólóplötur með söng hans. Rúnar söng með fleiri hljómsveitum um skemmri tíma s.s. Tilveru og Ópus 4.