Dísir vorsins

Dísir vorsins
(Lag og texti: Bjarki Árnason)

Bráðum anda vorsins dísir, djúpt og rótt,
dagarnir þeir lengjast, nóttin flýr.
Lofgjörð syngja fuglarnir af ljóðagnótt,
loftsins ilmur seyðir, hreinn og nýr.

Höfuð hneigja blómin móti blíðri sól,
blundar silfurdögg á gleym-mér-ei.
Tilfinningar allar þær sem ástin ól
eiga griðastað hjá sumarþey.

Þá skulum við koma út í kvöldgeislaflóð,
kyrrð og friður signa’ okkar fund.
Sestu hjá mér vina mín, svo saklaus og góð,
sælunnar við njótum þessa stund.

Geislafákar leika sér um loftin blá,
lognöldurnar kveða brúðarlag.
Enginn skuggi fellur okkar ástir á
eftir þennan fagra sumardag.

[m.a á plötunni Kvennakór Siglufjarðar – Aðeins eitt blóm]