Farmaður hugsar heim

Farmaður hugsar heim
(Lag / texti: Þórunn Franz / Árelíus Níelsson)

Er hafskipið svífur um sólgullið haf
og sindrar um himininn gullskýjatraf,
þá flýg ég á hugvængjum heim til þín mær,
því huganum ertu svo kær.

Þú situr við rúmið og ruggar svo þýtt,
róshvítar brár strýkur þú blítt,
en dóttirin bendir með hjúfrandi hönd,
og hverfur í draumsins lönd.

Hún kemur til pabba svo leikandi létt,
ég lít hvar hún dansar um öldurnar nett,
svo kyssir hún sefandi saltstorkna kinn
og syngur í huga mér inn:

Kæri pabbi, koss frá mér
kvöldsins engill til þín ber.
Mamma brosir blítt og rótt,
býður góða nótt.

Hún kemur til pabba svo leikandi létt,
ég lít hvar hún dansar um öldurnar nett,
svo kyssir hún sefandi saltstorkna kinn
og syngur í huga mér inn.

Kæri pabbi, koss frá mér,
kvöldsins engill til þín ber.
Mamma brosir blítt og rótt,
býður góða nótt.

[m.a. á plötunni Elly Vilhjálms – Heyr mína bæn]