Förukarl

Förukarl
(Lag / texti: Þorvaldur Blöndal / Stefánsson frá Fagraskógi)

Ég er friðlaus ferðalangur,
fæddur út við nyrstu höf.
Fátæktina og förueðlið
fékk ég bæði í vöggugjöf.
Ég hef farið land úr landi,
læðst um fjöll og dimman skóg,
sofið undir grænum greinum,
grafið mig í vetrarsnjó.

Að bæjardyrum bræðra minna
barði ég stundum áður fyr.
Um bita var mér soltnum synjað.
Sjúkum var mér hent á dyr.
Tár mín féllu á kaldan klakann.
Kvein mín voru hædd og smáð.
Æskan hló að angist minni.
Ellin gaf mér svikaráð.

Ég var barn í böðlahöndum,
bænin var mín eina hlíf,
fann að allir fyrirlíta
förumannsins snauða líf.
Af öllum varð ég illa liðinn,
alls staðar til þrengsla og meins.
Ég hef aldrei vænst að vera
virtur eða metinn neins.

Aldrei var þeim ætlað sæti,
ætlað rúm við gestaborð,
sem gátu aðeins greitt að launum
góðan hug og þakkarorð.
Fátæktina og förueðlið
fékk ég bæði í vöggugjöf
og verð að fara land úr landi
að leita að minni eigin gröf.

[óútgefið]