Heim til fjalla

Heim til fjalla
(Lag / texti: Jónas Pálsson / Guðmundur Guðmundsson)

Heim til fjalla,
Þar und háum hamrasölum
heiðblá fjólan grær í dölum,
fossar duna, lítil lóa
ljóð sín kveður út um móa:
ungur fyrst þar sá ég sól
sunnan undir grænum hól.

Heim til fjalla,
þar sem dísir dansa’ um nætur,
daggartárum himinn grætur,
lækir falla’ af fjallsbrún niður,
fyllir loftið þrasta kliður,
Hinst ég þar við sólu  sjá
sem ég barn í vöggu lá.

Heim til fjalla,
þar sem golan blómin bærir,
birkirunninn lága hrærir,
þar sem svanasöngvar hljóma,
svanavængir hvítir ljóma,
þar á vorin varði’ ég tún,
vakti einn á heiðarbrún.

Heim til fjalla,
þar sem bleikhvít bæjarþilin
ber í dökku fjallagilin,
grær á veggjum baldursbráin,
blá við túnið rennur áin;
oft hún mamma mig þar bar
meðan lítið barn ég var.

Heim til fjalla,
þar á mærin hýra heima,
hún sem ég skal aldrei gleyma,
lokkar hrynja’ um hálsinn bjarta,
hafdjúpt tindrar augað svarta.
“Ég get”, segir hún “sorgir stytt,
sjáðu: ég er hjartað þitt.”

Heim til fjalla,
þar sem ró er öllu yfir,
ástin hreina’ í brjóstum lifir:
fjöllin beina hug til hæða,
hjörtun lífga, fegurð glæða,
æskugleðin aldrei dvín
upp við blessuð fjöllin mín.

[engar plötuupplýsingar]