Heimþrá [2]

Heimþrá
(Lag / texti: erlent lag / Jóhannes úr Kötlum)

Ég er einn, ég er einn,
sál mín allslaus og hljóð.
Langt frá upprunans æð
þjáist eirðarlaus blóð.
Hvar er vængur þinn, vor?
Kannski verð ég of seinn,
kannski dey ég í dag,
kannski dey ég hér einn.

Ég vil heim, ég vil heim
yfir hyldjúpan sæ,
heim í dálítinn dal,
heim að dálitlum bæ.
Hver vill bera mig blítt
um hinn bláheiða geim?
Ó, þú blíðasti blær!
Vilt þú bera mig heim?

Allt er ljóð, allt er ljóð
þar sem lynghríslan grær,
þar sem víðirinn vex,
þar sem vorperlan hlær.
Þar sem afi minn bjó,
þar sem amma mín dó,
undir heiðinni há,
vil ég hvíla í ró.

[m.a. á plötunni Þrír háir tónar – [ep]]