Við eigum samleið

Við eigum samleið
(Lag / texti: Sigfús Halldórsson / Tómas Guðmundsson)

Um bláan sæinn söngvar óma,
því sumarið er komið, ástin mín.
Og aftur stendur allt í blóma,
af ungri gleði jörðin skín.
Og því skal fagna’ af heitu hjarta
og hylla þennan fagra, ljúfa dag,
og út í himinheiðið bjarta
skal hefjast okkar gleðilag.

Og glaðar raddir syngja’ í sálum okkar beggja,
mót sumri stendur framtíðin öll.
Og hátt er enn til lofts og vítt til veggja
í vorsins draumbláu sólskinshöll.
Og þangað hjartans löngun líður,
sem lengst og fegurst dagsins eldur skín.
Sjá, vorið eftir okkur bíður.
Við eigum samleið, vina mín.

[m.a. á plötunni Árnesingakórinn í Reykjavík – Sönglistin]