Við Vatnsmýrina

Við Vatnsmýrina
(Lag / texti: Sigfús Halldórsson / Tómas Guðmundsson)

Ástfanginn blær í grænum garði svæfir
grösin sem hljóðlát biðu sólarlagsins.
En niðri í mýri litla lóan æfir
lögin sín undir konsert morgundagsins.

Og úti fyrir hvíla höf og grandar,
og hljóðar öldur smáum bárum rugga.
Sem barn í djúpum blundi jörðin andar,
og borgin sefur rótt við opna glugga.

Og þögnin, þögnin hvíslar hálfum orðum.
Hugurinn minnist söngs, sem löngu er dáinn.
Ó, sál mín, sál mín! Svona komu forðum
sumrin öll, sem horfin eru í bláinn.

Ó, blóm, sem deyið! Björtu vökunætur,
sem bráðum hverfið inn í vetrarskuggann.
Hvers er að bíða? Hægt ég rís á fætur,
og hljóður dreg ég tjöldin fyrir gluggann.

[m.a. á plötunni Guðmundur Guðjónsson – Fagra veröld]