Vorgyðjan kemur

Vorgyðjan kemur
(Lag / texti: Árni Thorsteinsson / Guðmundur Guðmundsson)

Vona minna bjarmi
á barmi
þér ljómar,
ber mig upp til skýja,
þar gígja
þín hljómar.
Sólarhafs við ósa,
mín ljósa,
þú lifir,
leiftur himins titra
og glitra
þér yfir.

Ó, ég varpa tötrum
og fjötrum
ég fleygi:
Finn að nálæg ertu,
þó sértu
hér eigi.
Senn rís allt úr dvala
til dala
og voga,
dýrðleg blika sundin
og grundin
í loga.

Farðu’ um löndin eldi,
svo veldi
þitt víkki,
vorblær ylji dali
og bali
hver prýkki.
Komdu’ og bræddu ísinn
ó, dísin
mín dýra,
dróma leystu’ af sænum
með blænum
þeim hýra.

Allt til þess að blessa
og hressa
hið hrjáða,
holundir sem blæða,
að græða
hins þjáða,
kemur þú svo róskvik
með ljósblik
og lætur
laugast tárum hjarnið
sem barnið,
er grætur.

[m.a. á plötunni Hreinn Pálsson – Á ljóðrænum tónum]