Gísli Ólafsson (1885-1967)

Gísli Ólafsson

Gísli Ólafsson (1885-1967) var ljóðskáld og kvæðamaður sem þótti jafnframt snjall hagyrðingur og eftirherma. Hann fæddist á Eiríksstöðum í Austur-Húnavatnssýslu, flutti á fullorðins árum til Blönduóss og síðar Sauðárkróks þar sem hann bjó lungann úr ævinni.

Gísli byrjaði snemma að yrkja og eftir hann liggja nokkrar ljóðabækur, hann var auk þess hagyrðingur og kvæðamaður, en hann kvað eigin kveðskap á 78 snúninga plötu (ásamt Páli Stefánssyni kvæðamanni) sem út kom 1933 á vegum Fálkans, og var endurútgefin 1955. Þær upptökur voru svo enn endurútgefnar ásamt fleirum á plötunum Íslenzk rímnalög: Icelandic rímur songs (1966) og Tvísöngur (2004), sem innihélt annars vegar flutning Schola Cantorum og hins vegar eldri kveðskap á borð við þann sem hér er fjallað um.

Gísli samdi nokkur ljóð sem rötuðu inn á plötur, meðal þeirra eru hér nefnd Í Bolungarvíkinni sem heyra má á plötunni Hönd í hönd með Vagnsbörnum (1991), og Lifnar hagur hýrnar brá sem Anna Pálína Árnadóttir söng á plötunni Lífinu ég þakka (2013).

Gísli þótti snjöll eftirherma og nokkuð mun vera til af slíkum upptökum með honum sem og þar sem hann fer með kveðskap.

Efni á plötum