GMW (1985)

GMW var þjóðlagatríó sem starfaði haustið 1985 og voru meðlimir þess Grétar Magnús Guðmundsson (Meistari Tarnús), Matthías Kristiansen gítarleikari og Wilma Young fiðluleikari en nafn tríósins var myndað úr upphafsstöfum þeirra, þau voru einnig kölluð Grétar, Matti og Wilma.

Tríóið flutti evrópska þjóðlagatónlist, einkum frá Írlandi, Skotlandi, Norðurlöndunum og Austur-Evrópu en þau Matthías og Wilma höfðu áður starfað ásamt öðrum í annarri þjóðlagasveit sem bar nafnið Hrím.