Félag harmonikuunnenda við Eyjafjörð [félagsskapur] (1980-)

Merki Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð

Félag harmonikuunnenda við Eyjafjörð hefur verið starfandi fyrir norðan síðan 1980 og hefur lifað lengstum ágætu lífi með tilheyrandi félagsstarfi, dansleikjum og spilamennsku.

Það var Karl Jónatansson harmonikkuleikari sem hafði frumkvæðið að stofnun félagsins en hann hafði staðið að stofnun Félags harmonikuunnenda í Reykjavík fáeinum árum fyrr. Karl hafði flutt norður og fékkst við harmonikkukennslu á Akureyri en þá hafði reyndar staðið til að stofna slíkt félag í bænum þannig að stofnun þess átti sér nokkurn aðdraganda. Karl var í stjórn félagsins um tíma en aðrir hafa séð um formennsku í því, fyrst Hannes Arason og síðan Jóhann Sigurðsson, Jóhannes Jónsson, Einar Guðmundsson og Filippía Sigurjónsdóttir.

Auk þess að sinna hefðbundnu félagsstarfi harmonikkufélags s.s. með dansleikja-, tónleika- og harmonikkuhátíðahaldi, oft í samstarfi við önnur sambærileg félög, hefur félagið tvívegis hleypt heimdraganum og heimsótt erlenda harmonikkubræður, annars vegar sem fulltrúi Íslands í Atlanterhavs basserralle í Noregi (1989) og svo í heimsóknarferð til Færeyja (2004).

Félagið hefur iðulega haldið upp á stórafmæli sín með pomp og prakt, á tíu ára afmæli þess var t.a.m. gefið út veglegt afmælisrit og á tuttugu ára afmælinu var m.a. lagakeppni haldin. Í tilefni af tuttugu og fimm ára afmælis félagsins kom út tuttugu laga plata á vegum þess undir titlinum Félag harmonikuunnenda við Eyjafjörð 25 ára. Á henni léku meðlimir félagsins lög úr ýmsum áttum.

Síðan um aldamót hefur félagið haft aðstöðu í eigin húsnæði en það lifir í dag ágætu lífi eftir því sem best verður vitað.

Efni á plötum